Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Lögreglan bæði keyrir bifreið og eltir hana í sömu andránni!

Hvernig er þetta hægt? Jú, þetta er hægt á prenti. En í frétt mbl segir að "Lögreglan á höfuðborgarsvlðinu keyrði bifreið sem þeir eltu út af Víkurvegi í Grafarvogi eftir æsilega eftirför."

Jú, allt er hægt á prenti, þó að við þikjumst vita að orðið "á" vanti í textann í fréttinni. Sömuleiðis ætti að standa "bifreið sem hún elti ..." þ.e. lögreglan. Það er allt of mikið af svona flausturslegum vinnubrögðum við vinnslu frétta á mbl.is- minnist þess ekki að hafa séð svona vinnubrögð á bbc.co.uk og bt.dk - Virtur íslenskur fréttavefur eins og mbl verður að fara að taka sig á.


mbl.is Bíllinn þvingaður út af veginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

" ... darraðardans með Stjórnarskrá Íslands ... Stjórnarskráin er ekkert tyggigúmmí."

Var meðal þess sem Árni Johnsen sagði í ræðu á Alþingi í dag. Hann talaði lengi og blaðlaust. Sagði að þetta væri enginn leikur, heldur darraðardans með stjórnarskrá Íslands. Talaði um að þetta væri ekki stórt plagg, bara lítill pési upp á 16 blaðsíður (held að þær séu reyndar 19). "Stjórnarskráin er ekkert tyggigúmmí. Stjórnarskráin er heimspeki ..."

Árni er örugglega með málþóf og það voru töluverð læti í þingsal, mikið um ráp, þrusk, frammíköll og suss. Og til að teygja á lopanum gerði Árni t.d. athugasemd þegar fjármálaráðherra gekk úr þingsal (líklega var hann að fara í mat) og í sömu setningunni sagði Árni að "þarna gengur Atli Gíslason í salinn" og hældi honum með nokkrum orðum og hafði jafnvel orð um að Atli væri að snýta sér!

Eftir að Árni varð vitni að snýtiklút þingmannsins, sagðist honum svo frá að þegar hann var staddur á Grænlandi er verið var að taka upp þjóðfána Grænlendinga, hafi hann komið að máli við Grænlending einn og spurt hann hvort hann væri ekki ánægður að fá þjóðfána. Sá aðspurði lét sér fátt um finnast og hafði sagt að sér dygði nú bara vasaklúturinn sinn.

Já, Árni karlinn kom inn á ýmislegt í málþófinu og talaði t.d. líka um fjárglæframenn sem hefðu selt Ísland eins og hvert annað "kók og buff."


mbl.is Þingmenn syngja og dansa darraðardans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gasgrill stórhættuleg! - Hvar eru gömlu góðu kolagrillin?

Í frétt mbl.is í gær segir að gaskútur hafi sprungið á svölum á 5. hæð í Asparfelli. Mér skilst að allt slökkviliðið hefði verið sent á vettvang til öryggis. En sem betur fer varð ekki mikið tjón af þessu í þetta skipti.

Þetta atvik sýnir enn og aftur hversu hættulegir gaskútar eru. Það ætti alfarið að banna fólki að hafa gasgrill á svölum í sambýlishúsum. Slysahættan er alltaf fyrir hendi og getur sett tugi manns í hættu. Af hverju ekki að taka upp gamla góða kolagrillið. - Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég blogga um gassprengjufréttir.


mbl.is Gaskútur í ljósum logum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efnahagsböðull opnar augu Íslendinga - John Perkins fyrir og eftir 911

Í bók sinni Confessions of an Economic Hit Man lýsir Perkins þegar hann er á gangi við Ground Zero eftir árásirnar 11. september og því sem kemur upp í hugann. Hann kemur að Chase bankanum sem var stofnaður af David Rockefeller, og sem þreifst á olíupeningum, þjónaði efnahagsböðlum eins og honum sjálfum og bankinn lék stórt hlutverk við að ýta undir bandaríska hnattvæðingu. Og hann minnist þess að hafa lesið að David Rockefeller hafi verið upphafsmaður World Trade Center verkefnisins árið 1960, og að á s.l. árum hafi verið farið að líta turnana sem byrði (Perkins notar orðið albatross sem er fýlsfuglategund). Öllum var kunnungt um að byggingarar væru fjárhagsleg byrði, óheppilegar fyrir nútíma ljósleiðara- og Internettækni, og voru að sligast undan dýru og stirðu lyftukerfi. Turnarnir tveir höfðu einu sinni verið uppnefndir David og Nelson [Rockefeller]. Nú var fýllinn floginn. (Í eina skiptið sem ég hef komið til NYC, var farið með mig rakleitt í WTC, lyftan tekin upp á topp og þetta er a.m.k. hraðskreiðasta lyfta sem ég hef ferðast með á ævinni, enda fékk ég hellu fyrir eyrun á leiðinni upp, þetta var eins og að taka á loft í flugvél - en það er önnur saga).
 
Ég minnist aðeins á bók Perkins aftarlega í bloggi mínu frá 18.12.2007, þar sem ég skrifa m.a.: 'Perkins, sem fer á kostum í bók sinni, og sem hefur starfað í mörgum löndum, er gáttaður á þessu háttalagi og/eða þessum hugsunarhætti: “Geitur! Í höfuðborg mesta olíuríkis heims. Þetta virtist ótrúlegt.” En tekið skal fram að reynt var að koma í veg fyrir útgáfu bókar John Perkins, Confessions of an Economic Hit Man (2004).' Já, Perkins var mútað á sínum tíma eftir að hann hóf skrifin!
 
En áður en ég lýk við að segja frá því hvað Perkins var að pæla þarna niðri á Ground Zero, skal tekið fram að hann er að reyna að koma lesandanum í skilning um af hverju svo margir hata Bandaríkjamenn, og hvernig og hverjir stýra fjármagninu: land sem á í erfiðleikum er boðið lán t.d. hjá Alþjóðabankanum, en lánsupphæðin fer beint í vasa stórfyrirtækis sem fær verkefni við uppbyggingu í viðkomandi landi. Í heiminum í dag á sér stað mikil valdabarátta hjá stórfyrirtækjum, bæði í framleiðslu- og verktakageiranum, um að fá hin og þessi 'feitu' verkefni. Og oft hafa háttsettir starfsmenn slíkra fyrirtækja náin tengsl við bandaríska stjórnmálamenn. Gott dæmi er t.d. Bechtel Group, Inc. - En svo er dálítið kaldhæðislegt að fyrrv. tengdafaðir Perkins var stór karl í Bechtel og fyrrv. eiginkona hans hafði auðvitað unnið þarna.
 
Bechtel sem var á sínum tíma með karla eins og George Shultz og Caspar Weinberger innanborðs, er mjög gott dæmi um hagstæð tengsl milli einkafyrirtækis og bandarísku ríkisstjórnarinnar. Bechtel var áhrifaríkasta verkfræðinga- og byggingafyrirtækið í USA, og er líklega ennþá. Eftir að starfsferli þeirra lauk í Bechtel fengu þeir 'feitar' stöður í ríkisstjórnum USA: Shults varð utanríkisráðherra og Weinberger varnarmálaráðherra.
 
Eitt dæmi af mörgum, er sérstaklega sláandi lýsing Perkins um valdabaráttuna, þ.e. að fá 'feit verkefni,' tengist Panama skipaskurðinum. Og svo erum við svo fljót að gleyma: man einhver eftir loftárásinni á Panama 1989 og hverjir gerðu þessa loftárás?
 
Perkins er staddur í Panama árið 1972 og er viðmælandi hans í eftirfarandi frásögn Torrijos, forseti Panama:
Torrijos: "Núna stend ég uppi í hárinu á Bechtel."
Perkins: "Hvað áttu við?"
Torrijos: "Við höfum verið að íhuga að byggja nýjan Panamaskurð, með nýrri tækni, sem getur þjónustað stærri skip. Japanir gætu haft áhuga á að fjármagna þetta. Þeir eru stærstu viðskiptavinir Panamaskurðarins."
Perkins: "Einmitt. Þeir koma með fjármagnið, og þeir byggja nýja skurðinn."
Torrijos: "Bechtel mun verða úti í kuldanum. Þetta mun verða stærsta byggingaverkefni í sögunni. - Bechtel er uppfullt af Nixon, Ford og Bush stuðningsmönnum. - Mér hefur verið sagt að Bechtel fjölskyldan togi í spotta í Republikanaflokknum."
---
Svo gerist það árið 1981 að Torrijos var að fljúga til Coclesito, þar sem hann átti hús, og
vélin hrapaði og enginn komst af. Öryggisvörður hans staðhæfði nokkrum dögum síðar í símtali að það hefði verið sprengja um borð í vélinni. - Perkins vitnaði í þetta atvik í Silfrinu í dag, og reyndar annað sama eðlis.
 
Eftirmaður Torrijos var Manuel Noriega sem hélt uppi áætlunum um byggingu nýs skipaskurðar
með japönsku fjármagni. Mikil mótstaða kom frá Washington, enda billjónir í húfi fyrir
bandarísk byggingafyrirtæki. Í USA var Noriega úthrópaður fyrir spillingu og eiturlyfjabrask,
og að hann væri tvöfaldur í roðinu gagnvart Bandaríkjamönnum (kannski var einhverjum
borgað fyrir að skrifa um hann í blöðin - hverjir áttu fjölmiðlana?).
 
Svo gerist það 20. desember 1989 að Bandaríkjamenn gera heiftarlega loftárás á Panama. Álitið var að þetta væri stærsta loftárás á borg síðan í Seinni heimstyrjöldinni. Þetta var tilefnislaus árás á almenna borgara. Bandaríkjunum, sem og öðrum þjóðum, stafaði ekki nokkur ógn af Panama. Stjórnmálamenn, ríkisstjórnir og pressan um heim allan álitu þessa einhliða árás Bandaríkjamanna skýrt brot á alþjóðalögum. Hvorki höfðu verið framin mannréttindabrot þarna, né fjöldamorð til að réttlæta slíka árás, en talið er að árásin hafi verið gerð til að ná völdum þarna, af því að stjórnvöld í Panama voru ekki að koma til móts við óskir valdamikilla pólitíkusa og framkvæmdastjóra stórfyrirtækja í USA. Þeir sem rannsökuðu þessa árás komust að þeirri niðurstöðu að hún væri brot á alþjóðalögum.
 
Perkins segist hafa verið niðurdreginn dögum saman eftir þessa árás. Og eftir því sem hann hugsaði meira um hana var hann þess fullviss um að stefna stjórnvalda í Washington væri að ná heimsyfirráðum og að Bush-stjórnin ætlaði að sýna heiminum að þeir myndu ekki hika við að nota mikið herafl til að ná markmiðum sínum. Og að hans mati virtist sem markmiðið væri líka að koma strengjabrúðum til valda í Panama sem væru hliðhollar bandarískum stjórnvöldum, sem og að hræða lönd á borð við Írak, til að þeir gengju að skilmálum USA.
 
Í rauninni er loftárásin á Panama terrorista-árás á saklaust fólk og reyndi herinn að hylma yfir eyðilegginguna. En Perkins segir að bandaríski herinn hafi komið í veg fyrir að blaðamenn, Rauðikrossinn og aðrir, kæmust inn á átakasvæðið, í þrjá daga, eftir árásina, á meðan hermenn voru að eyða sönnunargögnum, þ.e. grafa sundurskotin og brennd lík. Mikil reiði ríkti í heiminum yfir þessum hryllilega verknaði en að sögn Perkins voru fáir í USA meðvitaðir um þessa reiði og árásina sjálfa. Ástæðan fyrir því var stefna stjórnvalda, símtöl úr Hvíta húsinu til útgefenda dagblaða og stjórnenda sjónvarpsstöðva. En hann nefnir eina undantekningu, en blaðamaðurinn Peter Eisner hjá Associated Press, rannsakaði málið í mörg ár. ...
 
wtcr.jpgÞar sem Perkins er á gangi við Ground Zero segist hann hafa fengið undarlega tilfinningu og kuldahroll; tilfinningu fyrir einhverju sem hann getur í fyrstu ekki áttað sig á. En haldið áfram að stara ofan í gapið þar sem turnarnir höfðu staðið. Segist hafa reynt að sjá fyrir sér aðstæðurnar þegar fólkið var að reyna að flýja turnana og stökkviliðsmennina flýta sér að koma því til hjálpar. Og reynir að hugsa um fólkið sem hafði stokkið. En þessar sýnir koma ekki fram í huga hans.
 
Þess í stað sér hann Osama bin Laden fyrir sér þiggja fjármagn og vopn að virði milljóna dollara frá manni sem er ráðinn af rágjafafyrirtæki sem er með samning við Bandaríkjastjórn. Síðan sér hann sjálfan sig sitja við tölvuna með auðan tölvuskjá fyrir framan sig. ...
 
Í hnotskurn, reyna stórfyrirtækin, sem er stjórnað af valdhöfum, að ná til sín fjármagni í formi uppbyggingar í löndum sem mega sín lítils fjárhagslega með því að:
1. Senda fyrst svokallaðan efnahagsböðul (EHM), til að fá stjórnvöld í viðkomandi landi til að þiggja lán t.d. frá Alþjóðabankanum. Ef það virkar ekki:
2. Senda þeir handbera sína til að vinna næsta verk á dagskrá, svok. sjakala, sem vinna yfirleitt skítverk, t.d. koma sprengjum fyrir í bílum, flugvélum eða byggingum. Ef það dugar ekki:
3. Senda þeir/stjórnvöld heilan her og gera loft- eða landárás. Þegar árásinni er lokið, eða stríðinu, er landið í rúst. Þá fyrst er hægt að fara að byggja upp og þá verður veisla hjá stjórfyrirtækjunum sem fá bygginga- og verkfræðingaverkefni með meiru. Fjármagnið, þ.e. lánið til uppbyggingarinnar, sem kemur yfirleitt frá alþjóðlegum fjármálastofnunum á borð við IMF, er greitt beint til verktakans. Og: þeir sem stjórna IMF eru svo auðvitað bandarískir í þokkabót. Þannig getur ferlið haldið áfram hring eftir hring, ár eftir ár.

Löggan aftur og nýbúin ... Allir þessir strákar hafa greinilega ræktunargenið í sér!

Lögreglan stöðvaði kannabisræktun, í frétt á mbl.is:

"Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu upprætti enn eina kannabisverksmiðju í dag. Nú var stórtæk verksmiðja stöðvuð í nýbyggðu einbýlishúsi í Hafnarfirði. Ekki var flutt inn í húsið en um 300 plöntur í fullum blóma voru í húsinu. Tveir menn hafa verið handteknir vegna rannsóknar málsins."

 

Það kemur á óvart hvað þessir strákar hafa 'græna putta' miðað við ræktina á öllum þessum fínu plöntum. Á hverjum degi fáum við fréttir af strákum sem hafa verið handteknir fyrir kannabisræktun. Ég bara skammast mín, enda hafa allar stofuplöntur hjá mér sungið sitt síðasta. Mér tókst ekki að halda endalausu lífi í þessu. Þegar ég lít yfir sviðið hjá mér sé ég bara bunka af gervistilkum í glærum vasa. Ja hérna. Kannski vantaði mig hvatann til að leggja rækt við stofuplönturnar. En ef þetta hefði verið ræktun til að hafa ágóða af því, þá hefði maður kannski verið natnari við plöntugreyin. Ætli strákarnir tali við kannabisplönturnar sínar, eins og maður heyrði að húsmæður gerðu hérna í gamla daga?
 
En strákarnir kunna þetta greinilega og það er kannski í þeirra innsta eðli að rækta grænar plöntur, af því að þetta er arðbært, en því miður ólöglegt. Nú sitja kannski feður og mæður þessara strákgutta og horfa í gaupnir sér og eru e.t.v. miður sín yfir framferðinu. En þau geta huggað sig við að heimspekingurinn Plato hafði einhvern tíma á orði að "af öllum skepnum er drengur sá sem ill mögulegast er að hafa stjórn á" eða eitthvað á þá leið.
 
Já, strákarnir fara sínu fram, hvað sem tautar og raular. Og mig rámar í orðatiltæki, sem er líklega frá Kahlil Gibran, sem segir að 'börnin þín eru ekki þín. Þau eru synir og dætur Lífslöngunarinnar sjálfrar.' Vissulega hafa synir, og dætur, löngun til að græða.
 
Þannig að foreldrar ræktunargæjanna, eða 'grænu puttanna' eiga ekki að vera með neitt samviskubit yfir uppeldinu. Afkvæmin bera ábyrgð á sínum gjörðum. Og sinni lífslöngun.
 

 


mbl.is Stórfelld kannabisræktun stöðvuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskipti felast í listinni að ná fé úr annars manns vasa án þess að beita ofbeldi. – Max Amsterdam.

Í fréttinni á mbl.is segir m.a. "Bankarnir eru taldir hafa stuðlað að sýndarviðskiptum með því að lána mikla fjármuni til þess að kaupa bréf í bönkunum sjálfum. Veð fyrir lánunum voru oftast nær bréfin sjálf. Með þessum aðferðum eru bankarnir taldir hafa haft veruleg áhrif á verðmyndun eigin bréfa á markaði en á sama tíma staðið sjálfir að stórum hluta af heildarveltu með bréf sín."

Til 'gamans' læt ég fljóta hér með nokkrar tilvitnanir í framhaldi af titli þessa bloggs:

Ef þú heldur að engum sé sama hvort þú ert lifandi eða dauður, prófaðu þá bara að sleppa nokkrum afborgunum af bílnum eða húsnæðinu. – Earl Wilson.

 

Ef þú lánar einhverjum 20 þúsund kall (eða 20 milljónir, eða milljarða, ef því er að skipta), og sérð hann/hana aldrei aftur, var það kannski þess virði. Óþekktur höfundur.

 

Kannski komum við auga á gildi Guðs fyrir smá auðlegð, með því að skoða þá sem hann útdeildi auðnum til. – Alexander Pope, Thoughts on Various Subjects, 1727.

 

Á hverjum degi þegar ég fer á fætur, les ég Forbes listann yfir ríkustu menn Ameríku. Ef ég er ekki á listanum, fer ég í vinnuna. – Robert Orben.

 

Þegar hlutirnir snúast um peninga, eru allir í sama trúfélaginu. – Voltaire.

 

 


mbl.is Markaðsmisnotkun banka til skoðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama dælir fé í svartholið og hangir í símanum – En hvað gerir Jóhanna? Mjakast truntan úr sporunum?

„Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur hringt um alla jörð frá því hann tók við embætti í janúar. Í dag hringdi hann svo út í geim og ræddi við geimfara, sem eru í alþjóðlegu geimstöðinni.“ skv. frétt á mbl.is  - En tekst honum að koma skikki á bykkjuna?

 

Efast um að það hefði fallið í góðan jarðveg að Jóhanna Sig. og Steingrímur J. hefðu legið í símanum sínkt og heilagt eftir að þau tóku við völdum hér á dögunum. En þau gerðu það eflaust, þótt það væri ekki opinbert. Kannski hringdu þau vegna áherslunnar á að stugga við mansali og rekstrti á nektarbúllum hér um daginn. En þau símtöl sem þau hefðu fengið prik fyrir, væru vissulega símtöl til skattaparadísa til að afla sér upplýsinga um falið fé útfararvíkinganna. Kannski heldur Jóhanna og co. að hún geti bjargað málum hér á stuttum ríkisstjórnarferli eftir Búsáhaldabyltinguna.

 

En fjármálasérfræðingar vestanhafs eru uggandi um hræðilegar afleiðingar af inngripi stjórnvalda í Washington varðandi fjármálamarkaðina. Þeim finnst sorglegt hversu margir heilaþvegnir íbúar trúa að ríkisstjórnin sé lausnin á öllum vandamálum.

 

Álíka viðhorf virðist vera í gangi hér á Íslandi: allir leggja traust sitt á nýja forsætisráðherrann Jóhönnu Sigurðardóttur á sama hátt og Kaninn leggur allt sitt traust á nýja forsetann Obama. Og Obama hangir í símanum! Hugmyndir hafa komið fram hér frá ýmsum spekúlöntum um að skera niður húsnæðisskuldirnar um 20%, einhver kom fram með hugmynd um að lengja lánin í 90 ár, og svo kom hugmynd frá Lilju Móses um að skera lánin um 4 milljónir, o.s.frv.

 

Obama er ákveðinn í að ‘bjarga’ bandaríska húsnæðismarkaðnum með því að hjálpa húsnæðiseigendum með greiðslur á veðlánum og þrýsta á lánveitendur um að gefa eftir ákveðinn hluta af lánunum.

 

En hvað er raunhæft að gera? Hvað virkar? Líklega veit það enginn.

 

Fjármálasérfræðingar vestan hafs segja að markaðsaðstæður hafi aldrei batnað þó að ríkisstjórnir hafi gripið inn í. Og þeir staðhæfa einnig að það sé ekki eitt dæmi í sögunni er ríkið ætlaði að hafa stjórn á fjármagnsmörkuðum að það hafi leitt til góðæris. En samt virðist Obama áfjáður í að dæla ómældu fé inn á markaðinn af því að hann er allur af vilja gerður.

 

Auðvitað: hann er nýr! Nýr forseti og allt. Og nú et tími Jóhönnu líka kominn. Og kannski tími Steingríms J. Eða hvað? En spurningin er: lætur bykkjan af stjórn?

 

Það er hollt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með því sem er að gerast í Bandaríkjunum, því  við erum að glíma við svipuð vandamál. Fyrst og fremst veðlán húsnæðiseigenda m.m. En sérfræðingar vestanhafs vita sínu viti og eru uggandi um stöðu mála. Þeim hryllir við þeirri hugmynd um að skera einhliða niður veðlán vegna þess að það hefur gífurlega neikvæð áhrif á hagkerfið og benda á að dómurum í gjaldþrotamálum hefur aldrei verið leyft að stytta veðlán.

 

Nú er Obama við völd í USA og vill vel, og Jóhanna & co. við völd hér og vilja vel. Bandarísku fjármálasérfræðingarnir eiga til orð eða samlíkingar yfir ýmis fyrirbæri í stjórnsýslunni og mig grunar að þeir eigi jafnvel við einhverja forseta þegar þeir tala um að kjánar geti verið skemmtilegir (var það Reagan?), lygarar eru, oftast, áhugaverðir (hm... hver?), gráðugur maður getur fært þér ríkidæmi, jafnvel fyrir tilviljun (á það kannski við Bush??), en sá velviljaði er alltaf hversdagslegur, jafnvel leiðinlegur og getur líka verið illskeyttur (á það kannski við Obama? eða hvað?). Nei varla, hann er alltaf í símanum þessa dagana!

 

Bandarískir fjármálasérfræðingar líta á USA sem frjálst ríki, stað þar sem heimsfjármagnið á sér heimkynni enda eru stærstu og öflugustu fjármálamarkaðir heims staðsettir þar. Sem er satt. En það sem þeim finnst hryllilegt er að stjórn landsins ætli að fjármagna allt hagkerfið með ferli sem þeir segja vera „Stalínískt.“ Þeir kalla þetta að velviljaður stjórnandi sé orðinn brjálaður. Og þessi velviljaði aðili, meistari Obama,  sem er bakkaður upp af alríkisstjórninni, er í þann veginn að eyðileggja það sem eymir eftir af efnahagslífinu, með því að kasta því litla sem eftir er í USA inn í hina endalausu svörtu holu fasteignamarkaðarins. Þeir líkja þessu við að spikfeitur karl ríði óviljugri bykkju. Og sá er á fullu að tala í gemsann sinn!

 

Kannski er Obama og Jóhanna & co. rétta fólkið, en bara ekki á rétta tímanum: þau settust viljug á bak óviljugri truntu, og ætla að reyna að koma henni af stað. Tekst þeim það?


mbl.is Obama hringdi út í geim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryllileg skjálftafóbía og kraftaverk eftir stórskjálfta í USA

"Jörð skelfur í Kaliforníu" segir í frétt í dag á mbl.is
 
Já, ég er haldin jarðskjálftafóbíu, enda upplifði ég einn harðan og minn fyrsta á Selfossi á 7. áratugnum. Og var svo alvarlega að hugsa um að flytja í tjald í Laugardalnum eftir stóra skjálftann 17. júní árið 2000. Hafði gallabuxur með lykla í vasanum tilbúnar við rúmstokkinn í margar vikur, ef annar stór kæmi. Komst í samband við erlendan aðila á netinu sem var fjölskyldufaðir og þau hjónin störfuðu í heilunargeiranum. Hann sá strax í gegnum mig, þegar ég sagði honum að dóttir mín hefði orðið mjög hrædd eftir skjálftann 2000. Við ræddum um jarðskjálfta og fleira. Hann sagði mér að þau hjónin hefðu búið í Norð-vestur hluta Bandaríkjanna og þar eru stórir skjálftar tíðir og eftir einn stóran skjálfta á 9. áratugnum var eiginkonu hans aldrei rótt eftir það, og þau fluttu oft eftir þann skjálfta.
 
Man alltaf eftir frásögn mannsins af þessum stóra skjálfta: þau hjónin ákváðu að sofa í forstofuherbergi nótt eina. En svefnherbergin voru innar í íbúðinni. Eldsnemma næsta morgun ríður heljarinnar skjálfti yfir og allt fór í mask. En það sem verra var að 5 ára sonur þeirra svaf í sínu herbergi langt frá forstofuherberginu. Það sem fór í mask skv. frásögn mannsins var allt erfðapostulín frúarinnar sem var geymt í stofuskápum. Allt var á rúfi og stúfi, eins og við getum ímyndað okkur: erfðastellin lágu mölbrotin eins og hráviði útum allt. Og barnið staðsett innan þessa hryllings. En þessi fjölskyldufaðir sagði mér að barnið þurfti auðvitað að komast til þeirra foreldranna og þess vegna þurft að vaða yfir mölbrotin stellin og hefði drengurinn gengið til þeirra án þess að skaðast. Hann lýsti þessu eins og að "barnið hefði verið borið yfir glerbrotin."
 
En við sem búum á skjálftasvæði, þar sem allt getur gerst, verðum við að hafa í huga: hvorki staðsetja rúmið þitt né barnanna við glugga og ekki hafa dót eða myndir hangandi undir höfðagaflinum hjá ykkur og börnunum. Það er stórhættulegt. Þetta getur hrunið í skjálfta og skaðað ykkur.

Fékk útrás fyrir AIG 18. mars s.l.

og hef því ekki þörf á að kasta sýndartómötum.

En skv. frétt á mbl.is fær fólk útrás í að kasta sýndartómötum í fyrirtækið!!

En mikilvægt er fyrir þig lesandi góður að átta þig á hlutverki AIG í bankahruninu. Þú getur lesið um mitt innlegg um það hér neðar á blogginu, frá 18. mars 2009.


mbl.is Sýndartómötum kastað í AIG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snemmbúið aprílgabb hjá Alaskamönnum???

Vegna fréttar á mbl.is : Eldgos í Alaska

Árið 2004 tók ég saman nokkur mögnuð aprílgöbb og ég man alltaf eftir aprílgabbinu frá Alaska:

Aprílgabb í Alaska 1974
Árið 1974 var íbúum í bænum Sitka í Alaska brugðið þegar eldfjallið
Mount Edgecumbe byrjaði allt í einu að spúa úr sér heljarmiklum svörtum reyk.
Fjallið hafði ekki látið á sér kræla áratugum saman. Fólk flykktist út á götur
og góndi uppá fjall, óttaslegið um að það myndi brátt byrja að gjósa.
 
Til allrar hamingju var reykurinn ekki frá náttúrunar hendi, heldur gerður af
manna völdum, eða réttara sagt, var af völdum eins manns. 
Einn íbúi staðarins, Porky Bickar, sem var þekktur húmoristi
og hrekkjalómur, hafði flogið með göml bíldekk í hundraðatali upp í gíg
eldfjallsins og síðan kveikt í, eingöngu til að fá íbúana til að halda að
eldfjallið væri að lifna við. Og sú goðsögn gengur ennþá um bæinn að þegar
eldfjallið Mount St. Helens gaus sex árum síðar, hafi íbúi í Sitka
skrifað hrekkjalóminum bréf og sagt: "Í þetta skipti hefurðu gengið of langt!"

 


mbl.is Eldgos í Alaska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband