Hryllileg skjálftafóbía og kraftaverk eftir stórskjálfta í USA

"Jörð skelfur í Kaliforníu" segir í frétt í dag á mbl.is
 
Já, ég er haldin jarðskjálftafóbíu, enda upplifði ég einn harðan og minn fyrsta á Selfossi á 7. áratugnum. Og var svo alvarlega að hugsa um að flytja í tjald í Laugardalnum eftir stóra skjálftann 17. júní árið 2000. Hafði gallabuxur með lykla í vasanum tilbúnar við rúmstokkinn í margar vikur, ef annar stór kæmi. Komst í samband við erlendan aðila á netinu sem var fjölskyldufaðir og þau hjónin störfuðu í heilunargeiranum. Hann sá strax í gegnum mig, þegar ég sagði honum að dóttir mín hefði orðið mjög hrædd eftir skjálftann 2000. Við ræddum um jarðskjálfta og fleira. Hann sagði mér að þau hjónin hefðu búið í Norð-vestur hluta Bandaríkjanna og þar eru stórir skjálftar tíðir og eftir einn stóran skjálfta á 9. áratugnum var eiginkonu hans aldrei rótt eftir það, og þau fluttu oft eftir þann skjálfta.
 
Man alltaf eftir frásögn mannsins af þessum stóra skjálfta: þau hjónin ákváðu að sofa í forstofuherbergi nótt eina. En svefnherbergin voru innar í íbúðinni. Eldsnemma næsta morgun ríður heljarinnar skjálfti yfir og allt fór í mask. En það sem verra var að 5 ára sonur þeirra svaf í sínu herbergi langt frá forstofuherberginu. Það sem fór í mask skv. frásögn mannsins var allt erfðapostulín frúarinnar sem var geymt í stofuskápum. Allt var á rúfi og stúfi, eins og við getum ímyndað okkur: erfðastellin lágu mölbrotin eins og hráviði útum allt. Og barnið staðsett innan þessa hryllings. En þessi fjölskyldufaðir sagði mér að barnið þurfti auðvitað að komast til þeirra foreldranna og þess vegna þurft að vaða yfir mölbrotin stellin og hefði drengurinn gengið til þeirra án þess að skaðast. Hann lýsti þessu eins og að "barnið hefði verið borið yfir glerbrotin."
 
En við sem búum á skjálftasvæði, þar sem allt getur gerst, verðum við að hafa í huga: hvorki staðsetja rúmið þitt né barnanna við glugga og ekki hafa dót eða myndir hangandi undir höfðagaflinum hjá ykkur og börnunum. Það er stórhættulegt. Þetta getur hrunið í skjálfta og skaðað ykkur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband