Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
18.3.2009 | 15:34
Hannes Smára reddar þessu
"Við blasi að ef ekki náist tekjur og eignir úr skattaskjólum og ef á skorti að eignir hinna föllnu banka standi á móti gerðum kröfum muni þeir sem enga ábyrgð báru á hruninu sem hér varð, almenningur og hefðbundinn atvinnurekstur, þurfa að greiða aukna skatta vegna þeirrar afdrifaríku meðferðar fjármuna sem virðist hafa átt sér stað hjá nokkrum tugum manna sem flestir höfðu yfir sér huliðshjálm bankaleyndar og skattaskjóla" segir í niðurlagi fréttar um skrif ríkisskattstjóranna.
Hver man ekki eftir orðum Davíðs Oddssonar þáverandi Seðlabankastjóra í frægu Kastljósviðtali í haust "við borgum ekki skuldir óreiðumanna"?
Og svo má rifja upp orð Hannesar Smárasonar í viðtali við Stöð 2 í lok október 2008:
Skv. frétt á mbl.is: "Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group, sagði í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, að hann ætli að leggja sitt fé í að byggja Ísland upp að nýju. Óhætt sé að segja, að of hratt hafi verið farið í útrás íslenskra fyrirtæka og fyrirtæki hafi verið stækkuð án nægilegrar undirbyggingar."
Í umræðum á spjallþræði á netinu 28.10. s.l. skrifaði ég m.a. varðandi þetta: "Ég segi 'nei takk' ég vil ekki ráða Hannes Smárason í byggingarvinnu hér á landi." En ef Hannes á einhvern pening aflögu, t.d. eitthvað óframtalið í einhverju skálkaskjólinu, og sem hann teldi fram, þá kæmi skattlagningin til góða hér, en held að fæstir treystu Hannesi & Co. fyrir fjármunum sínum í einhver fyrirtæki hér á landi, miðað við það sem á undan er gengið.
![]() |
Íslands sjálftökumenn hafa leikið lausum hala |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2009 | 14:18
Hér áður var refsað fljótt fyrir spillingu í kerfinu. En núna?
Ekki er lengur einungis talað um óábyrg útlán banka, stefnu stjórnvalda og helst til of áhættusækna framkvæmdastjóra. Nei, nú snýst umræðan um hreinan og beinan þjófnað, segir í greininni, þar sem fjallað er um aðkomu Evu Joly að íslenskum rannsóknum á bankahruninu.
Segir í meðfylgjandi frétt um spillingarhrellinn Evu Jolie. Maður fær á tilfinninguna að enginn hér í íslenska kerfinu hafi kjark til að leggja til atlögu við samlanda sína. Þetta var víst staðreyndin í kreppunni í Færeyjum á sínum tíma: enginn var dreginn til ábyrgðar.
En menn hafa verið látnir sitja inni og/eða látnir taka pokann sinn þegar upp hefur komist um spillingu þeirra í kerfinu. Mál sem ég man eftir er dæmið um hæstaréttarlögmanninn sem keypti áfengið á niðurgreiddu verði er hann gegndi ákv. embætti tímabundið og var rekinn úr dómarastarfi sínu í Hæstarétti fyrir vikið.
Annað nýlegra dæmi er um alþingismanninn Árna Johnsen, sem var í byggingarnefnd Þjóðleikhússins og keypti vörur í BYKO, lét senda sér þær heim, á reikning ríkisins. Var hann dæmdur til tugthúsvistar fyrir vikið og þurfti að dúsa á Kvíabryggju í 2-3 ár að mig minnir.
Já, og menn eru umsvifalaust teknir fyrir að stela hangiketslæri og jafnvel snæri.
![]() |
Eva Joly hreinsar út á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.3.2009 | 11:20
AIG rak svikamillu og virtir fjárfestingabankar voru meðvirkir
Bónusar AIG voru, og eru, auðvitað hluti af svikamillunni. Feitir bónusar hafa tíðkast í fjármálageiranum gegnum tíðina en það er lýsandi fyrir spillinguna sem er greinilega í gangi ennþá, að þrátt fyrir að félag sé tæknilega gjaldþrota, þá virðist ekkert lát á bónusum. Alltaf virðist vera til peningur fyrir bónusgreiðslur.
Eitthvað mjög skrýtið er að gerast á fjármálamörkuðum og ég get sýnt þér hvað það er og hvaða þýðingu það hefur.
Á þessri setningu hefst grein eftir Porter Stansberry, frá 4. okt. 2008, sem var gefin út í fréttabréfi aðila sem fylgjast grannt með fjármálamörkuðum um heim allan. Fyrirsögn greinarinnar er Hvernig hrun AIG var byrjunin á hruni banka um heim allan.
Fyrir þann sem veit ekki hvað þetta AIG er, upplýsist að það heitir American International Group, er Fortune 500 félag, og var með bókfærðar eignir að upph. 1.1. trilljón dollara og hafði 74 milljónir viðskiptavina í 130 löndum.
Eftirfarandi er áframhaldandi frásögn af því sem Stansberry segir í greininni. Og er hann fyrst og fremst að miða við bandarískt umhverfi. Og lesandinn fær á tilfinninguna að alls konar makk og spilling hafi viðgengist árum saman úti í hinum stóra fjármálaheimi sem hefur teygt anga sína hingað, landið lent í klóm spillingar enda íslenskir bankar verið í stór-útrás síðustu misserin og við sem höfum fylgst með vitum að þeir hafa spunnið peninga eins og kandífloss.
... Ef fátt var að valda þér áhyggjum í september 2008, ímyndaðu þér hvað mun gerast varðandi húsnæðisverð þegar atvinnuleysi mun aukast jafnt og þétt næstu mánuðina. Ástandið er slæmt núna, en húnsnæðisverð á eftir að lækka mun meira. Ástæðan er augljós: fleiri húsnæðiseigendur eiga eftir að lenda í erfiðleikum með afborganir. Þetta ástand á eftir að vara lengi af ástæðum sem flestir munu aldrei skilja.
Ástæðan fyrir hruninu á verðbréfamörkuðum
Það sem fram kemur hér á eftir er ein af lykil ástæðunum fyrir því að hlutabréfamarkaðir hrundu í september 2008. En ef þér tekst að skilja hvað raunverulega gerðist í þessum mánuði, mun margt skýrast fyrir þér.
Rísandi markaðir hafa sameiginleg einkenni og bjarstýnin sem ríkir þar á oft rætur að rekja til góðrar hugmyndar í byrjun. Það að nota langtímalán með veði í fasteignum til að greiða fyrir húsnæði virðist við fyrstu sýn góð hugmynd með nokkrum mikilvægum takmörkunum.
Sumar þessara takmarkana eru mörgum augljósar, svo sem þörfin á að eiga nokkuð góða útborgun, sýna fram á fastar tekjur og að hafa farið í greiðslumat. En einstaklingar eiga það til að verða spillingu að bráð, svo framarlega sem þeir fá nægan tíma og réttu hvatarnir eru fyrir hendi. Þetta er annað af tveimur hættumerkjum á rísandi mörkuðum. Það sem einu sinni virtist góð hugmynd verður svo sjálfsagt, eða hversdagslegt, að það hljómar eins og hver annar farsi eða klisja. Bandaríkjamenn hafa heyrt allar sögurnar um hvernig þetta gerðist á bandaríska húsnæðismarkaðnum, þar sem fólki var veitt lán án fastra vaxta, án þess að gengið væri úr skugga um að lántakandi hefði viðunandi tekjur, og án þess að hann færi í greiðslumat.
Þessi vinnubrögð, eins afleit og þau hljóma, hefðu ein og sér ekki skapað fjárhagslegan glundroða á heimsvísu án annars sýnu verra sem hafði verið í gangi. Ástæðan fyrir því að allt fór úr böndunum, var að spunnið var áfram utanum farsann, þannig að hann varð að svikamillu.
Og það er á þessu stigi þar sem AIG kemur til sögunnar.
Synt framhjá reglugerðum
Bankar á alþjóðamarkaði verða að lúta svok. Basel II reglugerðum. Reglugerðirnar kveða á um hversu mikið fjármagn banki verður að halda eftir og grundvallast á þeim útlánum sem bankinn veitir. Því áhættusamari lán sem banki veitir, því meira fjármagni verður banki að halda eftir í bókum sínum. Stjórnendur banka reyna eftir fremsta megni að viðhalda sem mestu jafnvægi/vogun eins og þeir geta, sérstaklega þegar vextir eru lágir, til að tryggja sem mestan hagnað. AIG virtist bjóða bönkum leið til að komast hjá Basel-reglugerðinni, gegnum tryggingasamninga sem voru ekki bundnir reglugerðum, þekktir undir nafninu credit default swaps.
Þetta virkaði á þessa leið: tökum sem dæmi stóran evrópskan banka. Fólk leggur mikið af peningum inn í bankann, af því að Evrópubúar eru ennþá þannig sinnaðir að þeim er umhugað um að eiga sparifé. Bankanum er umhugað um að leita eftir einhverju sóknarfæri sem hámarkar hagnað hans, sem er mismunur milli þess sem hann þarf að greiða í innlánsvexti og útlánsvexti. Bankinn vill finna auðveldustu og tryggustu leiðina. Bankinn veit að hann getur keypt sjóð sem samanstendur af fasteignaveðlánum með háum vöxtum (undirmálslán). En það gæti orsakað mismun í vogun og minnkað hagnað.
En í stað þess að útiloka þessi undirmálslán í eignasafninu, þá hringir bankamaðurinn einfaldlega í AIG-miðlarann, sem hann hitti á ráðstefnu í London í fyrra.
Hvað kostar það bankann að tryggja þennan fasteignalánapakka? spyr bankamaðurinn. Miðlarinn, sem er að selja 5-ára tryggingapakka (en sem fær greiddan árlegan bónus fyrir sölumennskuna) segir, Það kostar ekki of mikið. Enda segir sagan að tap af amerískum fasteignalánum sé nánast ekkert.
Miðlarinn sem notar ótrúlega þróað tölvuforrit, samþykkir að tryggja fasteignalánapakkann sem bankamaðurinn er að kaupa, til fimm ára fyrir t.d. 2% vexti.
AIG lyktar af bókhaldsaðferðum Enron
Þó að samningar AIG við banka væru í raunni tryggingasamningar, voru þeir ekki bundnir reglugerðum. Það þýddi að AIG þurfti ekki að leggja fram neinar tryggingar vegna skiptasamninga sinna, svo framarlega sem þeir hefðu AAA í lánsfjárhæfi. Til að selja þessar tryggingar, þurfti AIG ekki að búa yfir neinu eiginfjármagni svo nokkru næmi; það voru engin takmörk þarna. Og þökk fyrir það sem er svokölluð mark-to-market bókhaldsaðferð, gat AIG bókað hagnað af tryggingu á 5 ára credit default swaps tryggingasamningum, svo framarlega sem þeir hefðu selt trygginguna, og byggð á væntingum um útreiknaðan gróða samkvæmt líkaninu.
Og bónusarnir blómstruðu
Hvaðeina sem tölvuforritið spáði fyrir um að AIG hefði upp úr þessum samningum, færðu bókararnir sem hagnað í bækurnar. Miðlarinn sem seldi samninginn fékk greiddan bónus af sölunni í árslok löngu áður en hagnaðurinn yrði að veruleika.
Á þennan hátt gat evrópski bankinn sannfært yfirboðara sína, þ.e. fjármálaeftirlitið, um að hér væri um að ræða trygga aðila með AAA-lánshæfismat, í stað tunnufylli af eitruðum rusl-lánum. Þannig gat bankinn sýnt fram á jafnvægi gagnvart Basel II reglugerðinni. AIG gat með þessu móti bókfært hundruðir milljóna í gróða ár hvert, án þess að þurfa að reiða af höndum billjónir í ábyrgðir.
Þetta var svikamilla. AIG hafði aldrei lagt fram tryggingafé til að standa undir þeim tryggingum sem félagið seldi. Og hagnaðurinn sem félagið bókfærði hjá sér varð aldrei að veruleika. Hlutfall vanskila sem var áætlað fyrir árin 2005, 2006 og 2007 varð margfalt hærra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Og það hélt áfram að aukast.
Svikamillan gekk árum saman
Þrátt fyrir þessar hremmingar, virkaði kerfið árum saman. Fjármálafyrirtæki á Wall Street útbjuggu vöndla og seldu geld fasteignalán sem örugg og trygg lán. Og AIG hélt áfram að selja þessi lán án þess að auka eigin ábyrgð á þessum lánum. Stjarnfræðilegar fjárhæðir voru skapaðar á þennan hátt, sem voru úr lausu lofti gripnar, og seldar á fasteignamörkuðum út um allan heim.
Þann 15. september 2008 lækkuðu allar fjármálastofnanir lánshæfismat sitt gagnvart AIG, sem var stærsta tryggingafélag heims. Ástæðan var hrikalegt tap félagsins vegna trygginga á fasteignaveðlánum. Fyrsta áfallið kom á 4. ársfjórðungi 2007, þegar AIG tilkynnti um 11 milljón dollara kröfu. Félagið gat staðið undir þessari kröfu í eitt skipti, til að lágmarka skaðann. En töpin hrúguðust inn um dyrnar: á þessum tímapunkti var AIG þvingað til að sýna fram á billjónir dollara í tryggingar fyrir þessum veðum, og það á stundinni.
Þetta var til að toppa þær billjónir sem félagið skuldaði samstarfsfélögum sínum. Félagið átti þessar upphæðir ekki til. Stærsta tryggingafélag heims var orðið gjaldþrota.
Dómínósáhrifin fóru óðfluga af stað. Lehman Brothers hrundu sama dag. Merryl Lynch var selt Bank of America. Og bandaríski seðlabankinn tók skref sem átti sér ekki hliðstæðu: hann samþykkti að opna lánalínu til AIG uppá 85 billjónir dollara til að koma í veg fyrir að félagið væri tekið til gjaldþrotaskipta og þyrfti að selja eignir sínar á brunaútsölu, gegn veði í 80% af eigin fé AIG. Og nýjir stjórnendur voru settir í brúnna.
Almenningur á erfitt með að ímynda sér hvernig AIG var hvatinn að öllu heila klabbinu. Og það er enn eitt leyndarmál sem á eftir að koma í ljós ...
Virtur fjárfestingabanki meðvirkur
Stærsti viðskiptaaðili AIG var ekki nafnlaus evrópskur banki. Það var Goldman Sachs!
Greinarhöfundur hafði velt því fyrir sér árum saman hvernig Goldman Sachs hefði forðast að afskrifa þessa miklu fasteignaveðlána-pakka sem höfðu plagað alla aðra fjárfestingabanka. En við vitum það núna: Goldman girti fyrir þetta með tryggingasamningum við AIG. Heimildamenn innan Goldman herma að þeir hefðu bakkað AIG upp sem næmi rúmum 20 billjónum dollara. Og þegar lánshæfismat AIG var lækkað, þurfti Goldman að afskrifa eignir. Og þegar AIG fór í þrot, tapaði Goldman 20 billjónum.
Á hnjánum til Warren Buffet
Eftir þetta tap leitaði Goldman umsvifalaust á náðir Warren Buffet eftir 5 billjón dollara aðstoð, og fékk, sem gerði það að verkum að félagið gat halað inn viðbótar 5 billjónum í opinberu hlutafjárútboði.
Hrun AIG og skyldra félaga hafði gífurleg dómínósáhrif
Hrun tryggingamarkaðarins í tengslum við undirmálslán hafði þau áhrif að fjárfestingarbankar allir þeirra fengu hvergi peningalán, vegna þess að enginn gat tryggt þessi lán. Þeir urðu þess vegna algjörlega háðir seðlabönkunum í daglegum rekstri sínum, sem hafa leyft þeim formlega að starfa sem viðskiptabankar. Hingað til hafa bankar, tryggingafélög og fjárfestingabankar fengið að láni samtals 348 billjónir dollara frá bandaríska seðlabankanum (m.v. október 2008) og megnið af þessari upphæð var lánuð eftir fall AIG. Og ástandið er svo slæmt í bandarískum fjárfestingabönkum að seðlabankinn hefur orðið að breyta reglum sínum til að geta leyft Merril Lynch, Morgan Stanley og Goldman Sachs að nota bókfærðar eignir sínar sem ábyrgðir fyrir lánum, sem er aðgerð sem hefur aldrei verið framkvæmd áður.
En það er eitt atriði sem fjölmiðlar hafa ekki fjallað um varðandi björgunarhring bandaríska seðlabankans, en ein klausa í lánasamningi bankans til AIG kveður á um að bandaríska ríkið greiði vexti gegn eignarhaldi sínu í AIG, sem er einfaldlega leið til að dæla peningum skattgreiðenda beint til fjárfestingabankanna.
Greinarhöfundur spyr af hverju við þurfum að fá vitneskju um þessar staðreyndir. Jú, í fyrsta lagi, ef ríkið hefði ekki gripið inn í, hefði gjaldþrot AIG orsakað að allir helstu bankar heims yrðu gjaldþrota. Og í öðru lagi, ef þessi svikamilla AIG hefði ekki verið í gangi, hefði markaðurinn fyrir undirmálslánin aldrei orðið að þvílíkri bólu sem hann varð.
Vissulega léku aðrir þættir sitt hlutverk í þessu hruni, sérstaklega Fannie og Freddie. En masterlykillinn að hinni gífurlegu lánaþenslu s.l. áratug má rekja beint til sölu AIG á lánatryggingum án veða. Greinarhöfundur notar þá líkingu að þetta hefðu verið hlöðudyrnar hjá AIG, sem höfðu verið skildar eftir opnar í næstum áratug.
Í niðurlagi skrifanna segir hann að það sé engin leið til að eitthvað komi í staðinn fyrir hina stóru lánamaskínu sem var í gangi og hann er efins um að björgunaráætlun bandarískra yfirvalda standist. Í sannleika sagt er ekki lengur hægt að fá lán á borð við það sem tíðkaðist í heiminum fyrir 15. september 2008 vegna þess að allar þessar lánaívilnanir áttu fyrst og fremst ekki skilið að vera þarna til staðar. Þótt stjórnvöld geti stoppað í götin sem eru afleiðing af lánahruninu, geta þau í rauninni ekki endurskapað traustið og lánagetuna sem var í gangi ... vegna þess að þetta var byggt á svikum. Og þessi staðreynd fær hann til að trúa að samdrátturinn í efhagskerfinu verði dýpri og vari lengur en flestir geta skilið.
![]() |
AIG látið skila risabónusum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2009 | 00:59
Á hann meira dót í leikfangakassanum til að selja ódýrt?
Gott er nú vínið og gleðin er nóg
Og Guð er nú fíni kallinn,
Svo staðreyndum þarf ég að stilla í hóf
en hvert á að sigla með dallinn?
6.3.2009 Jón Ásgeir selur stóla og borð kontórs síns í Bretlandi, skv. fréttum á mbl.is:
Gott er nú vínið og gleðin er nóg
Og Guð er nú fíni kallinn,
Og stólum og borðum ég senn kem í lóg,
Því lausafjárstaðan er aðal gallinn.
![]() |
Jón Ásgeir selur snekkju og flugvél |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Í frétt á mbl. is segir m.a. um "Litlu Hafmeyjuna" að
"Ölgerðarmaðurinn Carl Jacobsen gaf Kaupmannahöfn styttuna árið 1913. Það var íslensk-danski myndhöggvarinn Edvard Eriksen, sem gerði styttuna og notaði Eline eiginkonu sína sem fyrirsætu."
Ekki hafði maður hugmynd um að þessi fræga stytta væri íslensk-ættuð!
Og svo:
"Flugvöllurinn í Kaupmannahöfn, sem á minni afsteypu af Litlu hafmeyjunni, hefur boðist til að lána borginni sína styttu svo hún geti gætt steinsins við Löngulínu fyrir stóru systur sína á meðan hún er í útlöndum."
Djísús, þarf þetta að vera svo mikið mál? Er ekki einfaldast að gera nýja afsteypu af Hafmeyjunni til að senda á sýninguna í Sjanghæ? Enginn mun sjá muninn. Og leyfa hinni upprunalegu Hafmeyju að verma steininn við hafið. Ljótt að vera að hrófla meira við Hafmeyjunni en tilefni gefur til. Enda hefur hún mátt þola ómælt ofbeldi af hálfu alls konar kóna í gegnum tíðina: verið handarbrotin og hálshöggvin oftar en einu sinni og jafnvel lent í mansali, að mig minnir.
Það síðasta sem litla Hafmeyjan þarf á að halda þessa dagana er sjóveiki og eitthvað 'Hara-kiri' þarna austur í álfu. Besta lausnin fyrir Baunann er að senda nákvæma afsteypu af meyjunni. Þannig er henni best borgið og hefur það alveg sama auglýsingagildið.
![]() |
Litla hafmeyjan send til Shanghæ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eftir lestur á frétt á mbl. sem byrjar svo "Hópur franskra femínista verðlaunaði í dag erkibiskupinn af París sem Karlrembu ársins fyrir þau ummæli sín að það væri ekki nóg fyrir konur að vera í pilsi, heldur þyrftu þær líka eitthvað á milli eyrnanna."
Segir enginn karl neitt á Íslandi eða konur neitt um karla hér að við gætum vakið athygli á ummælum á svipuðum nótum? Frakkar eru og hafa alltaf verið frakkir. Þeir hafa verið sérlega duglegir í mótmælum: hver kannast ekki við frönsku byltingina, stúdentaóeirðirnar '68 og mótmæli bænda snemma á 8. áratugnum þegar bændur mættu í tugum og helltu úr mjólkurbrúsum sínum á stræti Parísarborgar, til að mótmæla bágum kjörum.
En kannski eigum við amk þjóðrembu ársins 2008: sem sagði að þátttakendur á mótmælafundi í yfirfulluháskólabíói væru ekki rödd þjóðarinnar, eða eitthvað á þá leið.
Hvað heyrum við næst varðandi þjóðrembur, karlrembukjaft eða kvenrembukjaft?
Það væri áhugavert fyrir okkur að vera á verðinum gagnvart þessu. Og látum í okkur heyra.
![]() |
Franskur biskup hlýtur karlrembuverðlaun ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.3.2009 | 23:12
Hvað varð um gula búðingin hennar mömmu?
Datt þessi búðingur allt í einu í hug eftir að hafa lesið þessa frétt um að kona ein hefði skvett grænum búðngi að Mandelson, og eftir að hafa hlustað á pistil í Speglinum á Rúv fyrr í kvöld um eftirsjá Þjóðverja eins að Opel Kadett bifrieð sinni sem var gul á litinn og minnti hann á gult sítrónukrem sem mamma hans hafði alltaf búið til.
En þessi guli búðingur sem ég man eftir var örugglega amerískur og var mjúkur og meira fljótandi en Royal búðinarnir eru (sem enn er hægt að fá í búðum hér) og þeim ameríska fylgdi pakki með sósudufti sem vatni var bætt út í, og var sósunni hellt heitri útá búðinginn og var hún appelsínugul á litinn. Gerfileg sósa, en samt góð.
Mig minnir að ég hafi útbúið svona búðing á mínum fyrstu búskaparárum, en ég man ekki lengur hvað hann heitir og keypti hann kannski í búð ef hann fengist í dag. En nú á tímum er ég meira til í að búa til sítrónubúðing beint úr hráefni og hella náttúrulegri sósu útá eða bara nota ávexti. En ég man alltaf eftir þessum gula búðing sem var gómsætur og einstaklega mjúkur. - Og svona í lokin: ég hef einu sinni á ævinni fengið grænan búðing. Það var í veislu hjá föðursystur minni í Blesugrófinni snemma á 7. áratugnum. Og velti því fyrir mér árum saman hvernig frænkan fékk græna litinn. En nú ætla ég að rukka kellu um þessa uppskrift, ef hún man hana :)
![]() |
Kastaði grænum búðingi á ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2009 | 23:47
Ísland var of lítð fyrir 'útrásarvíkinga' - en hvar eru peningarnir? Birtast þeir aftur við sölu stóla og borða?
![]() |
Húsgögn úr skrifstofu Baugs í Lundúnum seld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.3.2009 kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í frétt mbl.is um AIG, sem er bandarískt trygginga- og fjármálafyrirtæki, segir m.a.:
"Bandaríska trygginga- og fjármálafyrirtækið AIG tapaði 61,7 milljörðum dala, jafnvirði nærri 7100 milljarða króna, á fjórða ársfjórðungi 2008. Er þetta mesta tap sem um getur hjá bandarísku fyrirtæki á einum ársfjórðungi. Alls tapaði AIG nærri 100 milljörðum dala á árinu öllu."
Í rauninni hefur þetta fyrirtæki spilað á svipuðum nótum og Enron. En margir sáu sögu þess félags í sjónvarpinu í gær. Ég horfði á Enron myndina í 3ja skipti í gærkvöldi og þar sem hún er viðamikil, sé ég alltaf eitthvað nýtt í henni. Maður getur ekki meðtekið alla þessa svikamillu í einum gúlsopa.
En ég er að ljúka við að þýða grein sem mér barst um AIG, 4. október í fyrra, og nú er kominn tími til að ljúka þessu og birta til að lesendur bloggsins hér fái færi á að setja sig enn betur inn í svikamillur þessa heims og hvað eftirlitskerfið er máttlaust og vita gagnslaust.
Fylgstu með næstu færslu frá mér um AIG dæmið.
![]() |
62 milljarða dala tap |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2009 | 18:25
IMF setur alltaf reglurnar - Þetta eru kallarnir sem ráða á heimsvísu
![]() |
Láta hýða sig í mótmælaskyni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |