Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Björgólfur sólar sig - það er frelsið

Heitasti dagur ársins 30.7.2008 – Hvað gerði ég – og aðrir?

Byrjaði daginn á kaffi og stauta mig gegnum blöðin úti á svölum. Heitasta umræðan núna greinilega ‘nauðgunarboðskapur’ dægurlagatexta sbr. “Stolt siglir fleyið mitt” og “Síðan ætla ég að sofa hjá þér, María, María, María” í anda nýjasta texta þjóðhátíðarlagsis.

Fór síðan á hádegisverðarfund í Norræna húsinu – frábær aspas-súpa- og síðan heimsókn á bókasafn hússins.

Lallaði mér síðan upp í HÍ til að sækja bók sem ég hafði pantað í gegnum Bóksölu stúdenta (besta verðið þar). Þaðan lá leiðin niður í miðbæ og ég velti fyrir mér hvernig ég átti að eyða þessum heitasta degi ársins. Fullt af fólki á ferli á Laugavegi og Austurstræti.

Mundi svo allt í einu að ég ætti erindi í  bankann minn, Landsbankann, og gekk að aðalstöðvunum í Austurstrætinu til að eiga viðskipti við einhvern góðan gjaldkera á vakt. Það var fremur líflegt fyrir utan Lansann í dag. Aðaleigandinn sjálfur, Björgólfur, sat á sillu við uppgang bankans, í köflóttri skyrtu og ljósum buxum, á tali við tvo karla. Þetta leist mér vel á: hvaða karl vill hanga inni á kontór á svona góðvirðisdegi. Um að gera að koma út úr hýðinu og fanga frelsið.

Fór síðan heim og velti fyrir möguleikum góðvirðisdagsins. Ákvað að hjóla niður í Laugarnes og kíkti aðeins á “bí-bí” á tjörninni hjá Hrafni Gunnlaugs. Þetta er vin í eyðimörkinni (sjá mynd). Nokkrir túristar voru á ferli þarna á hjólum, og forstöðukona Sigurjónssafnsins var að sóla sig ásamt annarri fyrir utan safnið. Ég kom mér síðan fyrir á grasbala við sjóinn til að lesa krimma-bókina sem ég hafði keypt fyrr um daginn. Þetta var kuldaleg lesning í hitanum í dag. Ég kom svo auga á grjót með mynd af hauskúpu eða draug, þegar ég fékk mér pásu frá lesningunni. Ætlaði að taka mynd af þessu.

 EndurHrafnGunnlaugs

Svo komu tveir strákar til að veiða, og staðnæmdust við myndagrjótið mitt. Fylgdist með ferlinu og aðalveiðimaðurinn var með rækjur til beitu og horfði á hann kasta langt út. “Rækjur eru dýrar” hugsaði ég með mér. Sagði unga veiðimanninum, sem ég þekki í sjón úr hverfinu, að ég hefði einu sinni búið niðri við Miðjarðarhaf og að þar notuðu gæjarnir sem kæmu niður að strönd til að veiða sér í soðið, deig til beitu; svona pizzu deig úr vatni og hveiti. Þeir fengu ekkert á krókinn og sögðust ætla að færa sig um set, en ég hélt áfram að lesa kuldalegan krimmann í hitanum, en sem betur fer var góður vindsvali þarna við hafið í sumarhitanum.

 

Tók síðan mynd af  ‘drauga-grjótinu’ og það minnti mig á það sem ég var að lesa:

Ghost

 

 

 

Tveir krimmar halda að þeir hafi losað sig við tvær stelpur með því að henda þeim fram af brú. Önnur þeirra lifir af og afleiðingarnar eru að í rauninni dóu fjórir þennan dag: morðingjarnir tveir og stúlkurnar tvær (þó að önnur þeirra hafið lifað af), en ég er að vona að hún hafi fengið uppreisn æru í sögunni (sem ég er rétt nýbyrjuð að lesa), því að skv. myndinni af grjótinu er eins og að lítil manneskja eða vera sé að kyssa hauskúpuna/vofuna (morðingjana), þessi litla vera birtist á myndinni til hægri, þarna á grjótinu.


Dagurinn endaði vel, þrátt fyrir glæpasagnalestur og að skemtiferðaskip sigldi svo út úr Faxaflóanum rétt fyrir kvöldmat í fylgd lóðsins. Hef séð stærri skip en þetta sigla þarna út, og stundum hef ég fengið minnimáttarkennd við að horfa á tiguleg fleyin sigla þarna út um kvöldmatarleytið og séð fyrir mér farþegana mæta í gala-kvöldverðina uppábúna í kjól-og-hvítt um leið ég er að læða ýsu í pottinn.

En frelsi er númer eitt: það að getað sest út í náttúruna og lesið sér að vild og spjallað við veiðigutta; sest á syllu á Landsbankanum og spjallað við karla um landsins gagn og nauðsynjar; og bara verið til. Það að lífið.

 


Yfirfullur strætisvagn - sem bilaði svo að lokum

Seinnipartinn í dag þurfti ég að bregða mér bæjarleið og mér fannst strætisvagninn vera seinni en vanalega frá sinni hefðbundnu seinkun. Og viti menn? Þegar hann kom loksins var hann pakkaður af túristum með bakpoka. Ég rétt komst inn og gat teygt höndina í átt að bílstjóranum til að sýna græna kortið. Það er hásumar, og ekki hægt að kvarta yfir að enginn noti strætó á há-annatíma ferðabransans, eða hvað? Túristar eru hagsýnir ferðalangar og notfæra sér auðvitað almenningssamgöngur eins og maður gerir á ferðalögum eins og kostur er.

Kannski ætti maður að haga lífinu dags daglega eins og maður væri á ferðalagi og hefði einungis ákveðinn eyðslueyri, frá degi til dags, þannig að maður færi að skammta sér og halda í við sig? Gæti verið gott mál eftir að öll lán og matur hefur hækkað gífurlega á klakanum síðustu vikurnar. Ég kvarta ekki undan benzínverði í þessari atrennu, þar sem ég þarf ekki að reka bíl núna.

En svo fór strætisvagninn að keyra hægar og hægar og svo drapst á honum. Þetta var nálægt mínum útgöngustað, þannig að ég fór frammí (túristarnir farnir) og spurði hvort hann væri bilaður og bað um að mér yrði hleypt út. En það skal tekið fram að þessi bilun hefur ekkert með bakpokatúristana að gera.

Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem ég hef lent í strætó sem bilar á miðri leið. Hef oft upplifað að vagn hafi keyrt inn á Kirkjusand og farþegar beðnir um að ganga yfir í annan vagn, en aldrei lent í að vagn drepi á sér í miðjum akstri. En ég hef oftar en einu sinni lent í alvarlegri bilun á einkabíl á ferð minni um landið eða í umferðarþunga höfuðborarinnar.

Strætó bs. er góður út af fyrir sig að vissu leyti, þó að fólk sé orðið langþreytt á lélegri þjónustu  félagsins, vegna stopulla ferða, sérstaklega nú yfir sumartímann. Bílstjórar sem ég hef rætt við, bera því við að þeir hafi mjög takmarkaðan tíma til að fara sinn hring, og get ég staðfest það, þar sem að þeir eru yfirleitt 5 mín. á eftir áætlun. Þetta hefur skapað streitu í stéttinni sem ég hef orðið vitni að.

En sem betur fer bila vagnarnir sjaldan og ég vona að vagninn í dag hafi komist eitthvað áfram eftir að ég steig út úr honum, en ég sá að hann hafði komist í gang, en veit ekki hversu langt hann komst.

 


Amma á kústi er allt sem til þarf!

Málið er, að með svona innbrjótsblésa, að þetta eru yfirliett svo litlar sálir, og væntanlega með alls konar 'foreldravandamál' að baki, að þegar að á reynir, getur amma gamla á kústi gert kraftaverk. Kannski var þetta amman sem þeir eignuðust aldre og báru virðingu fyrir henni þegar hún reiddi kústinn á loft og þeir forðuðu sér í stað þess að standa uppi í hárinu á ömmunni? 


mbl.is Ræningjunum sópað út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bygging nýs skóla í Kína fagnaðarefni - skjálftasvæði þurfa mikinn stuðning

og sýnir að fyrirtæki eru meðvituð um þörf á hörmungarslóðum og safna fé

til að byggja nýjan grunnskóla í Sichuan héraði. Er þetta ekki einmitt það sem við

vildum sjá hér á landi, ef t.d. stór skjálfti myndi ríða yfir landssvæði hér og

allt færi í hrun?

 

Þá yrðum við þakklát fyrir 'góð fyrirtæki' sem væru til í að leggja okkur

lið ef hrun yrði á hinu eða þessu hér á klakanum.


mbl.is Íslendingar reisa skóla á skjálftasvæðinu í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamenn á mogga án metnaðar

Já, er það virkilega? Hækkuðu hlutabréf vestan hafs í dag, skv. fyrirsögn á mbl.is?

Síðan kemur fréttin ... sem byrjar á setningunni " Hlutabréf lækkuðu á Wall Street í dag."

 

Á maður að trúa Mogganum, fyrirsögninni, eða fréttinni?  Greinilegt að ónákvæmir blaðasnápar

hafa verið ráðnir í vinnu á sneplinum. Blaðamenn hér hafa greinilega litla getu og lítinn metnað

á að koma frá sér fréttum á trúverðugan hátt. 


mbl.is Styrkingar í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband