Í bók sinni Confessions of an Economic Hit Man lýsir Perkins þegar hann er á gangi við Ground Zero eftir árásirnar 11. september og því sem kemur upp í hugann. Hann kemur að Chase bankanum sem var stofnaður af David Rockefeller, og sem þreifst á olíupeningum, þjónaði efnahagsböðlum eins og honum sjálfum og bankinn lék stórt hlutverk við að ýta undir bandaríska hnattvæðingu. Og hann minnist þess að hafa lesið að David Rockefeller hafi verið upphafsmaður World Trade Center verkefnisins árið 1960, og að á s.l. árum hafi verið farið að líta turnana sem byrði (Perkins notar orðið albatross sem er fýlsfuglategund). Öllum var kunnungt um að byggingarar væru fjárhagsleg byrði, óheppilegar fyrir nútíma ljósleiðara- og Internettækni, og voru að sligast undan dýru og stirðu lyftukerfi. Turnarnir tveir höfðu einu sinni verið uppnefndir David og Nelson [Rockefeller]. Nú var fýllinn floginn. (Í eina skiptið sem ég hef komið til NYC, var farið með mig rakleitt í WTC, lyftan tekin upp á topp og þetta er a.m.k. hraðskreiðasta lyfta sem ég hef ferðast með á ævinni, enda fékk ég hellu fyrir eyrun á leiðinni upp, þetta var eins og að taka á loft í flugvél - en það er önnur saga).
Ég minnist aðeins á bók Perkins aftarlega í bloggi mínu frá 18.12.2007, þar sem ég skrifa m.a.: 'Perkins, sem fer á kostum í bók sinni, og sem hefur starfað í mörgum löndum, er gáttaður á þessu háttalagi og/eða þessum hugsunarhætti: Geitur! Í höfuðborg mesta olíuríkis heims. Þetta virtist ótrúlegt. En tekið skal fram að reynt var að koma í veg fyrir útgáfu bókar John Perkins, Confessions of an Economic Hit Man (2004).' Já, Perkins var mútað á sínum tíma eftir að hann hóf skrifin!
En áður en ég lýk við að segja frá því hvað Perkins var að pæla þarna niðri á Ground Zero, skal tekið fram að hann er að reyna að koma lesandanum í skilning um af hverju svo margir hata Bandaríkjamenn, og hvernig og hverjir stýra fjármagninu: land sem á í erfiðleikum er boðið lán t.d. hjá Alþjóðabankanum, en lánsupphæðin fer beint í vasa stórfyrirtækis sem fær verkefni við uppbyggingu í viðkomandi landi. Í heiminum í dag á sér stað mikil valdabarátta hjá stórfyrirtækjum, bæði í framleiðslu- og verktakageiranum, um að fá hin og þessi 'feitu' verkefni. Og oft hafa háttsettir starfsmenn slíkra fyrirtækja náin tengsl við bandaríska stjórnmálamenn. Gott dæmi er t.d. Bechtel Group, Inc. - En svo er dálítið kaldhæðislegt að fyrrv. tengdafaðir Perkins var stór karl í Bechtel og fyrrv. eiginkona hans hafði auðvitað unnið þarna.
Bechtel sem var á sínum tíma með karla eins og George Shultz og Caspar Weinberger innanborðs, er mjög gott dæmi um hagstæð tengsl milli einkafyrirtækis og bandarísku ríkisstjórnarinnar. Bechtel var áhrifaríkasta verkfræðinga- og byggingafyrirtækið í USA, og er líklega ennþá. Eftir að starfsferli þeirra lauk í Bechtel fengu þeir 'feitar' stöður í ríkisstjórnum USA: Shults varð utanríkisráðherra og Weinberger varnarmálaráðherra.
Eitt dæmi af mörgum, er sérstaklega sláandi lýsing Perkins um valdabaráttuna, þ.e. að fá 'feit verkefni,' tengist Panama skipaskurðinum. Og svo erum við svo fljót að gleyma: man einhver eftir loftárásinni á Panama 1989 og hverjir gerðu þessa loftárás?
Perkins er staddur í Panama árið 1972 og er viðmælandi hans í eftirfarandi frásögn Torrijos, forseti Panama:
Torrijos: "Núna stend ég uppi í hárinu á Bechtel."
Perkins: "Hvað áttu við?"
Torrijos: "Við höfum verið að íhuga að byggja nýjan Panamaskurð, með nýrri tækni, sem getur þjónustað stærri skip. Japanir gætu haft áhuga á að fjármagna þetta. Þeir eru stærstu viðskiptavinir Panamaskurðarins."
Perkins: "Einmitt. Þeir koma með fjármagnið, og þeir byggja nýja skurðinn."
Torrijos: "Bechtel mun verða úti í kuldanum. Þetta mun verða stærsta byggingaverkefni í sögunni. - Bechtel er uppfullt af Nixon, Ford og Bush stuðningsmönnum. - Mér hefur verið sagt að Bechtel fjölskyldan togi í spotta í Republikanaflokknum."
---
Svo gerist það árið 1981 að Torrijos var að fljúga til Coclesito, þar sem hann átti hús, og
vélin hrapaði og enginn komst af. Öryggisvörður hans staðhæfði nokkrum dögum síðar í símtali að það hefði verið sprengja um borð í vélinni. - Perkins vitnaði í þetta atvik í Silfrinu í dag, og reyndar annað sama eðlis.
Eftirmaður Torrijos var Manuel Noriega sem hélt uppi áætlunum um byggingu nýs skipaskurðar
með japönsku fjármagni. Mikil mótstaða kom frá Washington, enda billjónir í húfi fyrir
bandarísk byggingafyrirtæki. Í USA var Noriega úthrópaður fyrir spillingu og eiturlyfjabrask,
og að hann væri tvöfaldur í roðinu gagnvart Bandaríkjamönnum (kannski var einhverjum
borgað fyrir að skrifa um hann í blöðin - hverjir áttu fjölmiðlana?).
Svo gerist það 20. desember 1989 að Bandaríkjamenn gera heiftarlega loftárás á Panama. Álitið var að þetta væri stærsta loftárás á borg síðan í Seinni heimstyrjöldinni. Þetta var tilefnislaus árás á almenna borgara. Bandaríkjunum, sem og öðrum þjóðum, stafaði ekki nokkur ógn af Panama. Stjórnmálamenn, ríkisstjórnir og pressan um heim allan álitu þessa einhliða árás Bandaríkjamanna skýrt brot á alþjóðalögum. Hvorki höfðu verið framin mannréttindabrot þarna, né fjöldamorð til að réttlæta slíka árás, en talið er að árásin hafi verið gerð til að ná völdum þarna, af því að stjórnvöld í Panama voru ekki að koma til móts við óskir valdamikilla pólitíkusa og framkvæmdastjóra stórfyrirtækja í USA. Þeir sem rannsökuðu þessa árás komust að þeirri niðurstöðu að hún væri brot á alþjóðalögum.
Perkins segist hafa verið niðurdreginn dögum saman eftir þessa árás. Og eftir því sem hann hugsaði meira um hana var hann þess fullviss um að stefna stjórnvalda í Washington væri að ná heimsyfirráðum og að Bush-stjórnin ætlaði að sýna heiminum að þeir myndu ekki hika við að nota mikið herafl til að ná markmiðum sínum. Og að hans mati virtist sem markmiðið væri líka að koma strengjabrúðum til valda í Panama sem væru hliðhollar bandarískum stjórnvöldum, sem og að hræða lönd á borð við Írak, til að þeir gengju að skilmálum USA.
Í rauninni er loftárásin á Panama terrorista-árás á saklaust fólk og reyndi herinn að hylma yfir eyðilegginguna. En Perkins segir að bandaríski herinn hafi komið í veg fyrir að blaðamenn, Rauðikrossinn og aðrir, kæmust inn á átakasvæðið, í þrjá daga, eftir árásina, á meðan hermenn voru að eyða sönnunargögnum, þ.e. grafa sundurskotin og brennd lík. Mikil reiði ríkti í heiminum yfir þessum hryllilega verknaði en að sögn Perkins voru fáir í USA meðvitaðir um þessa reiði og árásina sjálfa. Ástæðan fyrir því var stefna stjórnvalda, símtöl úr Hvíta húsinu til útgefenda dagblaða og stjórnenda sjónvarpsstöðva. En hann nefnir eina undantekningu, en blaðamaðurinn Peter Eisner hjá Associated Press, rannsakaði málið í mörg ár. ...
Þar sem Perkins er á gangi við Ground Zero segist hann hafa fengið undarlega tilfinningu og kuldahroll; tilfinningu fyrir einhverju sem hann getur í fyrstu ekki áttað sig á. En haldið áfram að stara ofan í gapið þar sem turnarnir höfðu staðið. Segist hafa reynt að sjá fyrir sér aðstæðurnar þegar fólkið var að reyna að flýja turnana og stökkviliðsmennina flýta sér að koma því til hjálpar. Og reynir að hugsa um fólkið sem hafði stokkið. En þessar sýnir koma ekki fram í huga hans.
Þess í stað sér hann Osama bin Laden fyrir sér þiggja fjármagn og vopn að virði milljóna dollara frá manni sem er ráðinn af rágjafafyrirtæki sem er með samning við Bandaríkjastjórn. Síðan sér hann sjálfan sig sitja við tölvuna með auðan tölvuskjá fyrir framan sig. ...
Í hnotskurn, reyna stórfyrirtækin, sem er stjórnað af valdhöfum, að ná til sín fjármagni í formi uppbyggingar í löndum sem mega sín lítils fjárhagslega með því að:
1. Senda fyrst svokallaðan efnahagsböðul (EHM), til að fá stjórnvöld í viðkomandi landi til að þiggja lán t.d. frá Alþjóðabankanum. Ef það virkar ekki:
2. Senda þeir handbera sína til að vinna næsta verk á dagskrá, svok. sjakala, sem vinna yfirleitt skítverk, t.d. koma sprengjum fyrir í bílum, flugvélum eða byggingum. Ef það dugar ekki:
3. Senda þeir/stjórnvöld heilan her og gera loft- eða landárás. Þegar árásinni er lokið, eða stríðinu, er landið í rúst. Þá fyrst er hægt að fara að byggja upp og þá verður veisla hjá stjórfyrirtækjunum sem fá bygginga- og verkfræðingaverkefni með meiru. Fjármagnið, þ.e. lánið til uppbyggingarinnar, sem kemur yfirleitt frá alþjóðlegum fjármálastofnunum á borð við IMF, er greitt beint til verktakans. Og: þeir sem stjórna IMF eru svo auðvitað bandarískir í þokkabót. Þannig getur ferlið haldið áfram hring eftir hring, ár eftir ár.