Björgólfur sólar sig - það er frelsið

Heitasti dagur ársins 30.7.2008 – Hvað gerði ég – og aðrir?

Byrjaði daginn á kaffi og stauta mig gegnum blöðin úti á svölum. Heitasta umræðan núna greinilega ‘nauðgunarboðskapur’ dægurlagatexta sbr. “Stolt siglir fleyið mitt” og “Síðan ætla ég að sofa hjá þér, María, María, María” í anda nýjasta texta þjóðhátíðarlagsis.

Fór síðan á hádegisverðarfund í Norræna húsinu – frábær aspas-súpa- og síðan heimsókn á bókasafn hússins.

Lallaði mér síðan upp í HÍ til að sækja bók sem ég hafði pantað í gegnum Bóksölu stúdenta (besta verðið þar). Þaðan lá leiðin niður í miðbæ og ég velti fyrir mér hvernig ég átti að eyða þessum heitasta degi ársins. Fullt af fólki á ferli á Laugavegi og Austurstræti.

Mundi svo allt í einu að ég ætti erindi í  bankann minn, Landsbankann, og gekk að aðalstöðvunum í Austurstrætinu til að eiga viðskipti við einhvern góðan gjaldkera á vakt. Það var fremur líflegt fyrir utan Lansann í dag. Aðaleigandinn sjálfur, Björgólfur, sat á sillu við uppgang bankans, í köflóttri skyrtu og ljósum buxum, á tali við tvo karla. Þetta leist mér vel á: hvaða karl vill hanga inni á kontór á svona góðvirðisdegi. Um að gera að koma út úr hýðinu og fanga frelsið.

Fór síðan heim og velti fyrir möguleikum góðvirðisdagsins. Ákvað að hjóla niður í Laugarnes og kíkti aðeins á “bí-bí” á tjörninni hjá Hrafni Gunnlaugs. Þetta er vin í eyðimörkinni (sjá mynd). Nokkrir túristar voru á ferli þarna á hjólum, og forstöðukona Sigurjónssafnsins var að sóla sig ásamt annarri fyrir utan safnið. Ég kom mér síðan fyrir á grasbala við sjóinn til að lesa krimma-bókina sem ég hafði keypt fyrr um daginn. Þetta var kuldaleg lesning í hitanum í dag. Ég kom svo auga á grjót með mynd af hauskúpu eða draug, þegar ég fékk mér pásu frá lesningunni. Ætlaði að taka mynd af þessu.

 EndurHrafnGunnlaugs

Svo komu tveir strákar til að veiða, og staðnæmdust við myndagrjótið mitt. Fylgdist með ferlinu og aðalveiðimaðurinn var með rækjur til beitu og horfði á hann kasta langt út. “Rækjur eru dýrar” hugsaði ég með mér. Sagði unga veiðimanninum, sem ég þekki í sjón úr hverfinu, að ég hefði einu sinni búið niðri við Miðjarðarhaf og að þar notuðu gæjarnir sem kæmu niður að strönd til að veiða sér í soðið, deig til beitu; svona pizzu deig úr vatni og hveiti. Þeir fengu ekkert á krókinn og sögðust ætla að færa sig um set, en ég hélt áfram að lesa kuldalegan krimmann í hitanum, en sem betur fer var góður vindsvali þarna við hafið í sumarhitanum.

 

Tók síðan mynd af  ‘drauga-grjótinu’ og það minnti mig á það sem ég var að lesa:

Ghost

 

 

 

Tveir krimmar halda að þeir hafi losað sig við tvær stelpur með því að henda þeim fram af brú. Önnur þeirra lifir af og afleiðingarnar eru að í rauninni dóu fjórir þennan dag: morðingjarnir tveir og stúlkurnar tvær (þó að önnur þeirra hafið lifað af), en ég er að vona að hún hafi fengið uppreisn æru í sögunni (sem ég er rétt nýbyrjuð að lesa), því að skv. myndinni af grjótinu er eins og að lítil manneskja eða vera sé að kyssa hauskúpuna/vofuna (morðingjana), þessi litla vera birtist á myndinni til hægri, þarna á grjótinu.


Dagurinn endaði vel, þrátt fyrir glæpasagnalestur og að skemtiferðaskip sigldi svo út úr Faxaflóanum rétt fyrir kvöldmat í fylgd lóðsins. Hef séð stærri skip en þetta sigla þarna út, og stundum hef ég fengið minnimáttarkennd við að horfa á tiguleg fleyin sigla þarna út um kvöldmatarleytið og séð fyrir mér farþegana mæta í gala-kvöldverðina uppábúna í kjól-og-hvítt um leið ég er að læða ýsu í pottinn.

En frelsi er númer eitt: það að getað sest út í náttúruna og lesið sér að vild og spjallað við veiðigutta; sest á syllu á Landsbankanum og spjallað við karla um landsins gagn og nauðsynjar; og bara verið til. Það að lífið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband