Yfirfullur strætisvagn - sem bilaði svo að lokum

Seinnipartinn í dag þurfti ég að bregða mér bæjarleið og mér fannst strætisvagninn vera seinni en vanalega frá sinni hefðbundnu seinkun. Og viti menn? Þegar hann kom loksins var hann pakkaður af túristum með bakpoka. Ég rétt komst inn og gat teygt höndina í átt að bílstjóranum til að sýna græna kortið. Það er hásumar, og ekki hægt að kvarta yfir að enginn noti strætó á há-annatíma ferðabransans, eða hvað? Túristar eru hagsýnir ferðalangar og notfæra sér auðvitað almenningssamgöngur eins og maður gerir á ferðalögum eins og kostur er.

Kannski ætti maður að haga lífinu dags daglega eins og maður væri á ferðalagi og hefði einungis ákveðinn eyðslueyri, frá degi til dags, þannig að maður færi að skammta sér og halda í við sig? Gæti verið gott mál eftir að öll lán og matur hefur hækkað gífurlega á klakanum síðustu vikurnar. Ég kvarta ekki undan benzínverði í þessari atrennu, þar sem ég þarf ekki að reka bíl núna.

En svo fór strætisvagninn að keyra hægar og hægar og svo drapst á honum. Þetta var nálægt mínum útgöngustað, þannig að ég fór frammí (túristarnir farnir) og spurði hvort hann væri bilaður og bað um að mér yrði hleypt út. En það skal tekið fram að þessi bilun hefur ekkert með bakpokatúristana að gera.

Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem ég hef lent í strætó sem bilar á miðri leið. Hef oft upplifað að vagn hafi keyrt inn á Kirkjusand og farþegar beðnir um að ganga yfir í annan vagn, en aldrei lent í að vagn drepi á sér í miðjum akstri. En ég hef oftar en einu sinni lent í alvarlegri bilun á einkabíl á ferð minni um landið eða í umferðarþunga höfuðborarinnar.

Strætó bs. er góður út af fyrir sig að vissu leyti, þó að fólk sé orðið langþreytt á lélegri þjónustu  félagsins, vegna stopulla ferða, sérstaklega nú yfir sumartímann. Bílstjórar sem ég hef rætt við, bera því við að þeir hafi mjög takmarkaðan tíma til að fara sinn hring, og get ég staðfest það, þar sem að þeir eru yfirleitt 5 mín. á eftir áætlun. Þetta hefur skapað streitu í stéttinni sem ég hef orðið vitni að.

En sem betur fer bila vagnarnir sjaldan og ég vona að vagninn í dag hafi komist eitthvað áfram eftir að ég steig út úr honum, en ég sá að hann hafði komist í gang, en veit ekki hversu langt hann komst.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband