Ung kona á litlum bíl bjargaði mér af ljósastaur í óveðrinu í miðbænum í dag!

Ég átti brýnt erindi í miðbæinn í dag. Ætlaði varla að þora út úr húsi, þar sem að listi rifnaði af svalalokuninni hjá mér í hádeginu, sem fauk síðan á svalahurðina og síðan niður í innkeyrsluna. Var skíthrædd um að restin rifnaði upp í þessu aftakaveðri og ylli skaða.

Um 13:30 hafði lyngt töluvert, og ákvað ég því að taka strætó niður á Lækjartorg, enda ekki langt að fara. Þegar þangað var komið, reyndist aftakaveður niðri í bæ. Varla stætt og þurfti ég að byrja á því að halda mér í bekk í smá stund og síðan tók ég sjensinn á að ganga yfir autt torgið, sem gekk frekar illa. En stefndi á gamla turninn í leiðinni, ef ég þyrfti eitthvað til að styðja mig við. Síðan lá leiðin eftir Hafnarstræti og hafði ég þetta af, þangað til komið var í Pósthússtræti.

Þar kom norðan vindgusan á móti mér beint af sjónum og átti ég fótum mínum fjör að launa. Náði að grípa í ljósastaur fyrir framan gamla Eimskipafélagshúsið, sem er hótel núna. Enda horfði ég beint inn í gluggann á bar hótelsins og komst hvorki lönd né strönd. Hékk þarna á staurnum og það var eins og tíminn stæði í stað. Engin framtíðarplön voru gerð þarna á staurnum. Bara bíða eftir næsta tækifæri til að fikra sig áfram.

Tók svo eftir bíl sem hafði keyrt framhjá, flautaði og bakkaði í áttina til mín. "Er allt í lagi með þig?" kallar ung kona úr bílnum. "Já, já" segi ég. Ég kemst bara ekkert. Hún bauð mér inn í bílinn sem ég þáði. En það var ekki auðvelt að opna bíldyrnar. Það var svo mikið sog.

En hún var svo hjálpsöm og keyrði mig þá örfáu nokkur hundruð metra sem ég átti ófarið í Tryggvagötuna.

Þessi stór greiði þessarar ungu og vösku konu bjargaði sannarlega deginum hjá mér. Og þó að ég hafi sagt "ung kona á litlum bíl" þá var hlutverk bílsins stórt, þótt um smábíl hafi verið að ræða. En því miður var hvorki tækifæri né aðstæður til að ég gæti spurt konuna um nafn, né ná bílnúmerinu, til að geta launað greiðann. En hún setti sjálfa sig í erfiðar aðstæður við að hjálpa mér í þessu líka óveðri.

 


mbl.is Rok og fok í höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband