Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
29.5.2008 | 21:53
Glerþakið - mun það brotna undan næsta skjálfta?
Mikilvægt er að börn fái áfallahjálp eftir skjálftann!
Ég man vel eftir umræðunni um að komast uppúr glerþakinu ár árunum kringum 2000 og síðar, í þeirri merkingu að fleiri konur þyrftu að komast ofar í píramýdann varðandi
stjórnunarstörf og laun hjá fyrirtækjum og stjórnsýslunni. En í dag, eftir þennan öfluga jarðskjálfta á Suðurlandi, fékk þessi umræða í mínum huga nýja merkingu: þ.e. að flýja, áður en að glerþakið sjálft hryndi niður á þá sem væru undir því.
Ég varð hálf gáttuð þegar ég var að horfa á fréttirnar um jarðskjálftann á Stöð2, þar sem að Svanhildur, Logi og fleiri fréttamenn voru stödd á Selfossi með Ölfusárbrú í baksýn, og voru að færa okkur fréttir og myndtengt efni frá ástandinu á svæðinu. Fram kom í máli þeirra að Sjúkrahús Suðurlands hefði verið rýmt (en gamla sjúkrahúsið hafði verið rýmt fyrr í dag vegna skemmda/eða sprungna í veggjum), á þeim tíma sem fréttatíminn var, til öryggis, vegna þess að það hefði glerþak!!
Ja, hérna! Kommon! Hvaða spútník arkitekt skyldi hafa dottið í hug að hanna sjúkrahús með glerþaki? Örugglega mörgum, því gler, og mikið gler, er í tízku í dag, og ekkert að því. Skoðaðu bara Borgartúnið! En að byggja sjúkrahús með glerþaki (það er jú örugglega flott og nýtízkulegt), en, halló, að byggja sjúkrahús á Selfossi með glerþaki er annað mál. Þetta svæði er alræmt jarðskjálftasvæði. Það hafa líklega verið spútník karlar og kerlingar í byggingarnefndinni sem samþykktu byggingu þessa húss, enda líklega frágengið fyrir Skelfi2000 og súpa nú seyðið af þessu vegna Skelfis2008. Og ekki bara vegna jarðskjálfta, heldur líka vegna Heklu. Þegar hún fór að gjósa árið 1947, vaknaði amma upp við vondan draum og hélt að bíll hefði keyrt á húsið, en hún bjó á Selfossi mest alla sína búskapartíð.
Mín fyrsta hryllingsminning um jarðskjálfta, gerðist einmitt á Selfossi, heima hjá ömmu og afa, um kl. 5 að morgni, þegar ég vaknaði upp við að húsið vaggaði til og frá, með miklum hávaða. Hélt að stór mjólkurbíll eða trukkur væri að keyra framhjá. En amma sagði að þetta væri jarðskjálfti. Frá og með þessum morgni var öryggi heimsins í mínum barnsaugum brostið.
Síðan þá, hef ég haft mikla jarðskjálftafóbíu og var alvarlega að hugsa um að flytja í tjald í Laugardalnum eftir Skelfi2000. Ekkert varð reyndar úr flutningum hjá mér í dalinn það ár, en ég var alltaf í viðbragðsstöðu næstu vikurnar: svaf hvorki nakin né fáklædd, en hafði húslyklana og síðbuxur til taks við rúmstokkinn.
Reyndi að leita eftir smá áfallahjálp og komst í samband við mann í Bandaríkjunum sem hafði búið á miklu jarðskjálftasvæði þar, einhvers staðar í Pacific North-West ríkjunum, og sagði hann mér magnaða jarðskjálftareynslusögu (kannski meira um það síðar), og að eiginkona sín væri ekki búin að ná sér eftir þá reynslu, mörgum árum síðar.
Hitti síðan um tveimur árum síðar kunningjakonu á förnum vegi og spurði hana um mömmuna, sem ég vissi að hafði búið á Hvolsvelli og hvort hún hefði lent í tjóni vegna stóra skjálftans árið 2000. Sagði hún mér að móðir sín væri látin en þau systkinin notuðu gamla fjölskylduhúsið sem sumardvalastað. Og viti menn: kunningjakonan hafði verið stödd á Hvolsvelli 17. júní 2000 og var nýkomin út úr húsinu og var á leið á samkomu: Gangstéttinn gekk í bylgjum. Þetta var hryllilegt. Ég hélt að það væri kominn heimsendir. Ég gekk til sálfræðings út af þessu.
Einmitt. Ég sá viðtal við móður og lítinn dreng í Hveragerði á Stöð2 nú í kvöld. Móðirin sagðist hafa verið stödd úti við með litla barnið í vagni, en sá litli var inni og komst ekki út af sjálfsdáðum eftir skjálftann, af því að ekki var hægt að opna hurðina. Drengurinn var greinilega í miklu áfalli. Gráti næst og mátti vart mæla. Gríðarlega mikilvægt er að börn, og líka fullorðnir, sem upplifðu þennan hrylling í dag fái áfallahjálp. Það er gríðarlega mikilvægt, ég veit það best sjálf, vegna þess að ég sjálf ræddi aldrei við neinn um ótta minn eftir skjálftann á Selfossi þarna um árið (kunni það ekki, nema kannski núna) og fékk sting í úlnliðina við minnsta titring (kannski var bara einhver að smyrja sér kexköku við matarborð í kaffiboði).
En þar sem ég veit að ég er ekki laus við skjálftafóbíuna er ég rosalega fegin að hafa fengið frí frá því að finna fyrir skjálftanum í dag. Ég ætlaði út að erindast fyrir hádegi en það dróst. Fór ekki út fyrr en rúmlega tvö og fór hjólandi í smá útréttingar og er á kassa í Bónus í Faxafeni kl. 14:30. Síðan hjóla ég heim og er líklega nálægt Laugardalsvellinum þegar skjálftinn reið yfir.
Kem heim, set ketilinn yfir og kveiki á útvarpinu. Þar var verið að tala við fólk og ég fer að hlusta. Fyrst fékk ég tilfinningu um að ég væri komin til baka í tíma, eða til ársins 2000, þar sem að fólk er að tala um jarðskjálfta. Síðan átta ég mig á sannleikanum.
Ég hafði sem sagt fengið undanþágu frá því að upplifa skjálftahryllinginn í þetta skiptið, þar sem ég var að hjóla úti. Engin umræða var í útvarpinu um hvort fólk í Reykjavík hafði fundið fyrir skjálftanum, enda kastljósinu beint að upplifun fólksins fyrir austan.
Fór síðan í smá leiðangur um sex leytið og hitti fyrir kunningjakonu sem vinnur á Skeifusvæðinu. Spurði hana hvort hún hefði fundið fyrir skjálftanum í dag í vinnunni. Jú, það var nú virkilega: Þetta var eins og högg. Hélt að húsið væri að hrynja. Bróðir minn og konan hans búa á Selfossi. Það er allt í rúst heima hjá þeim. Þau eru bara komin í bæinn og ætla að gista hér.
All margir hafa hlotið smávægileg meiðsl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.5.2008 | 20:09
Mannleg mistök orsaka alvarlegt slys í Alcoa
Mér skilst að slysið sem varð í Alcoa í gærkveldi,
hafi verið af völdum mannlegra mistaka. Sprauta þurfti
þann slasaða niður vegna kvala. Sendi honum mínar bestu
óskir um bata. En svona slys gerast vegna galgopaháttar
án þess að gæta fyllsta öryggi. Eftir minni bestu vitneskju
er ökuhraði á tækjum á Alcoa svæðinu 20 km. Þeir sem fara
fram úr þessu fá líklega tiltal.
Átti samtal við konu um daginn sem vinnur þarna og nefndi hún
það sérstaklega við mig að þetta væri hættulegur vinnustaður.
Skildi ekki alveg hvert hún var að fara, en skil það núna eftir þetta
slys. Eitthvað apparat var tengt við lyftarann sem lamdist í manninn
sem slasaðist, á sá sem keyrði lyftarann var greinilega ekki að hugsa,
þrátt fyrir að nýjir starfsmenn fari á mánaðar námskeið áður en hafið
er störf, og í því námskeiði felst öryggisþátturin.
Vinnuslys í álveri Alcoa-Fjarðaáls | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |