Gylliboð fjármálafyrirtækja komu lántakendum sjálfum á hvolf.

En ekki skilja þetta sem svo að fjármálafyrirtæki séu alfarið "vondi gæjinn" í þessu ástandi. Einstaklingur tekur lán fyrir tryllitæki (bíl) og fjármálastofnun lánar viðkomandi fyrir græjunni. Stofnunin heldur að gæjinn geti borgað af bílnum og gæjinn heldur að hann geti borgað afborgarnirnar. Sem hann gat ekki þegar á reyndi. Hann langaði bara til að eignast flottan bíl.

Lánadrottinn og lántakandinn tapa bæði á gjörningnum. Þessi 'bílasamningur' milli þeirra var gerður með hámark bjartsýninnar að leiðarljósi. Allir ætlutðu að græða á þessu. En allir eru að tapa, þegar á botninn er hvolft.

Gífurleg lánastarfsemi af hálfu banka og fjármálafyrirtækja hafa komið landinu á hvolf.

Gífurleg lántaka of margra Íslendinga hafa komið þeim sjálfum á hvolf.

Þegar ég sjálf var að fara út í lífið, datt mér aldrei í hug að taka lán fyrir blikkbelju. Maður keypti bara notaðan bíl. En ekki fyrr en maður gat staðgreitt dósina. Það hvarflaði ekki að manni að fara út í einhvern flottræfilshátt og halda að maður gæti eignast 'betri' bíl, og hvað þá að hafa hugdettu til að taka lán fyrir þessu. En það voru auðvitað bankarnir og fjármálafyrirtækin sem komu því inn hjá landanum, að taka hreinlega lán fyrir öllu sem hann langani til að eignast: húsnæði, bifreið, hjólhýsi, sumarbústað, utanlandsferð, árshátíðarferð, og jafnvel fatnaði (merkjavöru). Íslendingar tóku ýmist lán fyrir löngun sinni í hitt eða þetta og/eða yfirdrátt. Því fór sem fór hjá mörgum.

Enginn gerði ráð fyrir "bankahruni" og að missa vinnuna í kjölfarið. Og geta þar af leiðandi ekki greitt afborgunina á hinu eða þessu. En það er alveg sama þó að ekkert hrun hefði orðið hér, að þegar einstaklingar kaupa flest allt með lántökum eða afborgunum, að þá ráða þeir ekki við þetta á endanum.

Ef einstaklingum/fjölskyldum á að vegna vel, er skynsamlegast að byrja smátt, eiga fyrir því helsta sem keypt er (sérstaklega sumarfríinu/utanlandsferðinni), og fikra sig smám saman í átt að settum markmiðum, t.d. varðandi bílakaup eða fá sér stærra húsnæði: leggja fyrir, í stað þess að eyða öllu jafn óðum. 

Ég segi þetta bara svona, vegna þess að þegar ég var yngri var ekkert hér um kreditkort. Og maður skipulagði utanlandsferðina löngu fyrirfram: maður sparaði fyrir henni og sparaði fyrir gjaldeyri. Og þegar ferðin var farin átti maður fyrir henni. Og kom sem sagt ekki skuldugur vegna ferðarinnar, til baka. 

Það gildir það sama með bílakaupin: ekki taka lán fyrir dýrum bíl, sem þú ert ennþá að greiða af eftir að bíllinn er kannski orðinn úreltur, ónýtur eða mjög lítils virði.


mbl.is 18 ára fékk 100% lán til að kaupa rándýran bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef nú alltaf verið geðveikt sparsamur og skynsamur í fjármálum, alldrei leyft mér neitt, ekki í "góðærinu" og hvað þá í dag! Keypti pínu íbúð, eins litla og ég komst upp með að kaupa, keypti öll húsgögn notuð og ódýr, keypti 300 þús króna bíl sem ég borgaði á borðið og hefur enst mér í 5 ár núna.

En ég er samt núna í dag að lenda í djúpum skít því ég missti vinnuna, alltíeinu get ég ekki lengur greitt alla reikninga þrátt fyrir lítilfjörlega lifnaðarhætti mína. Reikningarnir safnast núna einn og einn upp, og svo koma vextir, lögræðibréfin birtast, dráttarvextir, innheimtukostnaður blablabla... var að fá tildæmis bréf núna, nýkomið í vanskil og beint í innheimtu hjá lögfræðistofu og upphæðin næstum tvöföld við fyrsta bréf. Boltinn byrjaður að rúlla og vítahringurinn er byrjaður og undirrótin að því er hvað? liðið sem lifði hátt í góðærinu og spreðaði eins og það gat... lánastofnanir og lánadrottnar sem höguðu sér og haga sér ennþá eins og hvað.. rússneska mafían eða reyndar verr??

Ja mér finnst soldið skítt að þurfa að súpa seyðið af því að hafa ekki tekið þátt í ruglinu... mér líður eins og ég hafi verið að fara sparlega með peninginn svo hægt væri að hirða hann af mér til að borga fyrir flottheitin á hinu liðinu sem tók fullan þátt í geðveikinni... stundum held ég bara að maður hefði bara átt að lifa eins og kóngur þessi 5 eða 6 ár eins og flestir hinir gerðu og láta svo bara allt draslið rúlla í gjaldþrot hjá mér eins og það er hvort eð er byrjað að gera núna.

Það er nefnilega ákveðinn hópur sem hagaði sér skynsamlega og tók ekki þátt í lánageðveikinni og eyðslufylleríinu en er samt að missa allt útúr höndunum aðallega útaf atvinnu og tekjumissi, eignaupptöku og brjálæðislegum vanskilavöxtum og innheimtukostnaði.

Jahérna (IP-tala skráð) 2.6.2010 kl. 03:24

2 Smámynd: Júlíus Valdimar Finnbogason

Ég tek undir með ykkur báðum.

Það er ömurlegt fyrir fólk að lenda í þessu sem í raun reyndi að haga sér skynsamlega. 

Hinsvegar fer alveg gríðarlega í taugarnar á mér þegar fólk þvertekur fyrir að hafa tekið þátt þrátt fyrir að það sé með 2-3 bíla í hlaðinu, nýjan bústað, fór í 4 utanlandsferðir 2007, fellihýsi(til að fara með upp í bústað) o.sfrv.
Ungt fólk gekk svo langt að fá foreldra til að leggja inn á sig einhverjar milljónir(þau sem gátu en ekki allir) til að búa til falska innistæðu í banka til að fá hærra húsnæðislán. Hvernig eiga t.d. bankarnir að meta svoleiðis þegar fólk lýgur kannski um 10 milljónir?
En já, allt þeim að kenna

Það eru ótrúlega margir svona hræsnarar í samfélaginu í dag og það ergir mig ekkert lítið. 

Mig langar að setja inn færslu hérna sem ég setti inná annað blog tengt þessari frétt og ég vona að það sé í lagi. 

Hvort sem okkur finnst 18 ára barn/unglingur þá er þetta fólk fjár og sjálfráða.

Þó þú sért 18 ára og fáir svona kort sent heim í póstinum þá þýðir ekki að þú eigir að nota það. 

Foreldrar eiga að hafa vit fyrir börnum sínum en málið er nú bara þannig að það er mokað svoleiðis undir rassgatið á börnum í dag að þau hafa ekki hundsvit á peningum og bera því enga virðingu fyrir þeim.(Ekki algilt en ríkjandi)

Vissulega er þetta siðlaust af kreditkortafyrirtækjum en engu að síður ekki ólöglegt. Svo til þeirra sem eldri voru og fengu þessi boð, þau tóku því mörg hver í stað þess að klippa kortin eða rífa þessa aukaheimild sem var verið að bjóða þeim. 

Ég er með kreditkort, konan líka en þessi kort okkar eru alltaf í veskinu þrátt fyrir að við notum þau nánast aldrei. Við höfum fengið tilboð uppá hærri heimildir og það hvarflar bara ekki að mér að taka því. 

Ef ég ætla að kaupa mér flatskjá þá staðgreiði ég. Ef ég kaupi mér tölvu þá staðgreiði ég.  T.d. keypti ég og frúin flatskjá fyrir jólin 2009 og er það okkar fyrsti. Vorum með gamalt sjónvarp fram að því en það dugði okkur. 

Ég er eins og hver annar samt með íbúðarlán og bílalán en mér dettur ekki í hug að kaupa mér munaðarvörur eins og sófa, uppþvottavél, ísskáp, gaseldavél, fín pottasett(300,000), fellihýsi o.sfrv á raðgreiðslum. 

Þetta er og var "fullorðna" fólkið að kaupa sér og mundi maður ætla að þetta fólk stigi í vitið en því miður virðist ekki svo vera og slógu margir um sig og versluðu í kredit eins og enginn væri morgundagurinn. Svo er það sorglegasta við þetta allt saman að það reynir að kenna öðrum um sem mér finnst einkar kjánalegt.

Hverskonar fordæmi er það gagnvart börnunum okkar?

Ég er með eitt dæmi sem ég gerði varðandi son minn fyrir nokkrum árum. Hann býr hjá móður sinni og við gáfum honum dollara í afmælisgjöf/fermingargjöf/jólagjöf svo hann ætti pening til að kaupa sér hluti í Bandaríkjunum þegar við tókum hann með okkur þangað. (eitthvað sem honum langaði að kaupa sjálfum fyrir sinn pening)

Hann fær dollarana(átti sjálfur að bera ábyrgð á þeim því unglingar þurfa að læra að bera ábyrgð) og svo þegar að kemur að ferðinni þá er hann búin með þá. Ég skildi hvorki upp né niður hvernig 14 ára unglingur gat eitt dollurum á Íslandi og þá kom í ljós að bankinn skipti þessu bara og engra spurninga varpað fram. 

Í fyrsta lagi þá skil ég ekki bankan að taka við dollurum frá 14 ára unglingi, hrein fásinna og í 2 lagi þá spurði mamma hans mig hvort ég mundi bara ekki láta hann hafa meira.

Ég hélt nú ekki enda er það eitt lélegasta fordæmi sem maður getur sett. Enginn ábyrgð kennd svona og ég neitaði en þá bætti hún honum tjónið sem hann olli sjálfum sér. Nú hef ég ekkert á móti barnsmóður minni en þetta fannst mér fáránlegt. 

En þetta er ekki eina dæmið og heyrir maður mjög mörg dæmi svipaðs eðlis og foreldrar eru margir hverjir börnum sínum verstir. 

Ég t.d. skil ekki foreldra sem gefa börnum sínum tölvuleik uppá 10 þúsund í skóinn, hreinlega fatta það ekki.
Ég gef kannski 10 þúsund í jólagjöf og 5000 í afmælisgjöf. Ég er algjörlega mótfallinn stefnu margra foreldra að vinna eins og geðsjúklingar svo börnin geti eignast nýjustu tölvurnar, merkjaföt o.sfrv.
Hversu fáránleg skilaboð er maður að senda börnunum?

Kannski er það af því að ég kem af fátæku heimili og úr sveit þar sem manni var kennt ábyrgðartilfinning en á sama tíma kenndu foreldrar mínir mér ekkert um peninga og ég á mínum yngri árum virti ekki aurinn. Ég læt það ekki gerast fyrir mín börn, ég mun allavegana leggja mig fram í því að kenna þeim verðgildi og ábyrgðartilfinningu, eitthvað sem mér finnst vanta í nútíma þjóðfélagi. 

Júlíus Valdimar Finnbogason, 2.6.2010 kl. 06:28

3 Smámynd: Ingibjörg Magnúsdóttir

Ég segi nú bara "ja hérna" við færslu Jahérna frá 2.6.10. Vildi gjarnan koma með innlegg á þessa færsu við fyrsta tækifæri, sem ég og mun gera, þegar hægist um hjá mér.

Sama er að segja um færslu Júlíusar V. Finnboga. - Ég á eftir að lesa þetta betur frá ykkur báðum, því að ykkar innlegg eru mikilvæg inn í fjármálaumræðina sem þarf að kryfja til mergjar.

Ingibjörg Magnúsdóttir, 15.6.2010 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband