Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2022
24.11.2022 | 21:57
Þjóðarsauður kynntur á Alþingi
Háttvirtur þingmaður Flokks fólksins, Jakob Frímann, kynnti til sögunnar Þjóðarsauð Íslands. Nýtti hann sér sýnikennslu, með því að lyfta blaði með teikningu af sauðnum til útskýringar.
Var hann áminntur (kannski ávíttur?) af forseta Alþingis um að það stangaðist á við fundarsköp að sýna teikningar við ræðuhald.
Þingmaðurinn gerði þetta af góðum hug, þar sem hann veit að landsmenn, þ.m.t. þingmenn, skilja hlutina mun betur þegar útskýrt er með myndmáli.
Mér dettur í hug að það sé tilvalið að nota Þjóðarsauðinn undir þjóðarauðinn. Þ.e. það sem þjóðin getur nurlað saman og sparað. Tilvalið að slátra stórum hrút, fá færan aðila til að stoppa dýrið upp. Innyflin yrðu auðvitað nýtt í afurðir, enda stutt í Þorra með slátri, lyfrarpylsu og tilheyrandi.
Síðan er tilvalið að leita til nýsköpunarfyrirtækis til að finna upp skotheldan innri búk sem er jafnframt teygjanlegur, enda tútnar sauður út eftir því sem meira í hann er látið. Til að bæta betur í væri hægt að setja lög um að þeir sem hafa verið að tipla á tánum á Tene og væru með afgangs klink, yrði gert að skila því til Þjóðarsauðsins.
Við Íslendingar höfum alltaf öfundað Norðmenn af olíusjóð þeirra. Nú er komið að okkur, og við getum eignast okkar eigin ´olíusjóð´ ef við viljum.
Tilvalin staðsetning er í hvelfingu í Seðlabankanum hjá Ásgeiri. Enda er hann örlátur á háa vexti.
Þjóðarsauðnum mun vaxa ásmegin hjá Ásgeiri í Svörtuloftum.
En svona í lokin, veit einhver hver svokallaður gullforði Íslendinga er hár? Hefur mikið verið eytt af honum á undanförnum misserum. Veit að hann, ef eitthvað er eftir, er geymdur á Englandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)