Í júlí 2005 gengum við mamma fram á Helga Hó á Langholtsveginum, þar sem hann stóð vaktina með mótmælaspjald sitt.
Mig hafði lengi langað til að spjalla við karlinn, ef hann yrði á vegi mínum, sem og varð oft, en þá var maður alltaf á ferðinni á einhverju farartæki, nema í þetta sinn. Við stöldruðum við og buðum Helga góðan daginn og ræddum við hann um stund. Karlinn var hress og ræðinn. Aðspurður (mamma, sem fór auðvitað að rifja upp gamla tíma) sagðist jú hafa synt í sjónum. Það eitt gaf mér til kynna að Helgi hefur alltaf verið hörkukarl og hraustur. Það ku hafa verið hér fyrr á árum þegar nokkrir karlar voru við verkfallsvörslu uppi Kollafirði eða einhvers staðar á þeim slóðum. Þeir fóru ekki heim á kvöldin og syntu í sjónum til að þrífa sig. A.m.k. Helgi Hó. Enda engin baðaðstaða á svæðinu.
Ég man vel eftir Helga Hó í strætó með eitt af sínum frægu mótmælaspjöldum hér fyrr á árum, eftir að hafa mótmælt niðri í bæ daglangt. Á þeim tíma fannast mér hann alltaf spúkkí og datt auðvitað ekki í hug að yrða á hann. Mér fannst hann furðulegur og öðruvíusi en aðrir. Satt að segja stóð mér stuggur að manninum.
Þess vegna kemur það skemmtilega á óvart, að eftir andlát hans kemur í ljós að hann hefur átt hin bestu samskipti við börn og unglinga í Langholtshverfinu þar sem hann bjó. Ég var auðvitað full fordóma í garð karlsins á sínum tíma, eins og svo margir sem horfuðu upp á hann skvetta skyrhræringi á Alþingismenn og ata Stjórnarráðið tjöru á 8. áratugnum, þegar hann var að mótmæla veru sinni í Þjóðkirkjunni.
En það sem er sérstakt við Helga og sérstaklega táknrænt, er það að mótmælaaðgerðir hans eru rifjaðar upp nákvæmlega núna, vegna andláts hans, og þær sýna okkur að hann er ekkert öðruvísi en aðrir sem þurfa að mótmæla. Mótmælendur Íslands í dag hafa framkvæmt svipaðar aðgerðir og Helgi Hó, með því að henda eggjum, kartöflum og öðru á Alþingishúsið og skvett rauðri málningu á Stjórnarráðið og aðrar byggingar. Ef eitthvað er, eru mótmælendur samtímans með fjölbreyttari aðgerðir en eru ekki endilega bíræfnari en Helgi.
Myndina tók ég af Helga og mömmu, Sesselju Lúðvíksdóttur (f. 1932) í umrætt skipti á Langholtsveginum í júlí 2005:
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.