4.11.2008 | 00:50
Samhengi milli bruna á bílum og frystihúsum?
Mér er í fersku minni fréttir af ýmsum brunum á frystihúsum úti á landi hér áður fyrr, framar öðrum brunum, fyrir utan hlöðubruna á ýmsum býlum í sveitum þessa lands.
Kannski er þetta mér í svo fersku minni, af því að þegar ég var yngri las ég aðallega slysafréttir í blöðum og skrýtlur, frekar en leiðara og aðrar pólitískar greinar.
Man ekki hvort einhverjir frystihúsabrunar hafi orðið á höfuðborgarsvæðinu á 8. 9. og 10. áratugnum.
En það hefur lítið farið fyrir fréttum af frystihúsabrunum yfirleitt s.l. misserin. Kannski er farið að klæða, endurgera og byggja frystihús úr óbrennandi efni, eða hvað?
Og kannski kviknar ekki lengur í frystihúsum af því að eigendur þeirra hafa grætt svo mikið á aflakvótanum? Ég skal ekki segja.
Man eftir einstaka stórbrunum á öðrum fyrirtækjum á 7. og 8. áratugnum, svo sem á athafnasvæði Eimskips nálægt Borgartúni, Klúbbnum gamla við Borgartún og gamla góða skemmtistaðnum við Tjörnina (nú Listasafn Íslands).
En nú brenna bílar landsmanna sem aldrei fyrr. Er eitthvað í gangi? Nú virðast stórfyrirtæi ekki brenna til grunnna, heldur blikkbeljur landsmanna í hrönnum. Skyldi vera eitthvað líkt með gömlum eigendum frystihúsa og núverandi eigendum (dýrra) ökutækja á Íslandi í dag?
Ástandið er ekki eðlilegt.
Ýmsir brunar hafa orðið á höfuðborgarsvæðinu á s.l. misserum, eða frá árinu 2000. Þeir eru ólíkir brunum á bílum, frystihúsum og eldi (íkveikju) í húsum/blokkum. Þar hafa líklega annarlegar hvatir legið að baki, svo sem ítrekaðar íkveikjur í ónefndu húsi við Vatnsstíg, íkveikjan við Laugar þegar það var í byggingu, bruninn mikli í Faxafeni, stuttu eftir aldamótin 2000.
Tryggingafélögin hér á landi munu líklega fara að hugsa öðruvísi, eftir alla bílabrunana að undanförnu. Bílaeigendur gætu átt von á mikilli hækkun á tryggingagjöldum.
En umfram allt þurfa yfirvöld að fara að huga að meiri löggæslu og eftirliti í ÖLLUM hverfum á höfuðborgarsvæðinu og úti um allt land. Því það virðist sem svo, og tilfinningin er slík að ein aðferðin í að mótmæla ástandinu í niðursveiflunni og kreppunni hér sé jafnvel að birtast í því að kveikja bara í eigum sínum. Sé sjaldan lögreglubíl á sveimi um nætur í miðri viku, og þaðan af síður um helgar, í mínu hverfi. Kannski ekki skrítið, enda mannekla og líklega yfirvinnubann hjá lögreglunni.
Og það sem meira er, að þeir sem kveikja bál af öðrum og annarlegum ástæðum, muni notfæra sér kreppuástandið og fara að kveikja í líka.
Enn einn bílabruninn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.