Geitur aðstoða auðmenn - og vonandi öfugt - Asnaleg sorphirða?

Getur verið að eitthvað sé asnalegt við sorphirðu? Kannski fyndist þér “asnalegt” að vinna á öskubíl hjá borginni, eða að það sé fyrir neðan þína virðingu, eða að þurfa að sjá um öskutunnurnar í þínu húsi. En er sorphirða ekki eitthvað sem þú fæst við daglega: þú hendir afgangs matarleyfum og pappír í ruslafötuna þína. Þegar hún er orðin full, ferðu með þetta sorp út í tunnu eða fleygir því niður um ruslalúguna. Þetta er eðlilegur þáttur í lífi okkar allra og við eigum að leggjast á eitt um að ganga eins vel frá sorpi eins og við getum; binda vel fyrir pokana og henda ekki of umfangsmiklum hlutum niður um ruslalúgur. Það er ekkert asnalegt við það.

 

Næstum það eina sem ég veit til að er asnalegt við sorphirðu er hvernig þeir hirða sorpið í litlum bæ á Sikiley. RÚV sýndi fréttapistil frá ítölskum bæ fyrir skemmstu, man ekki hvað hann heitir, og það sem er svo asnalegt við sorphirðuna þar, er að þeir nota asna við sorphirðuna, í bókstaflegri merkingu.

 

Sorpbíll bæjarins söng sitt síðasta á árinu. Bílar eru rándýrir, hvað þá sérútbúnir sorpbílar, þannig að nú eru asnar í vinnu hjá bænum fimm tíma á dag ásamt umsjónarmanni sem teymir asnann sinn, um sitt hverfi. Asninn reiðir tvo kassa: í annan fer endurvinnanlegur úrgangur en annað sorp fer í hinn. Þetta er frábært framtak hjá þessum litla ítalska bæ á tímum endurvinnslu, grænorku, endurvinnanlegrar orku og átaks um minni útblástur á koldíoxíði.

 

Kveikjan að þessum pistli varð til um daginn þegar ég las fyrirsögn í Fréttablaðinu þann 6.12. s.l. “Vona að auðmenn sinni geitum” og fjallaði um að íslenska geitin væri í útrýmingarhættu og frásögn í bók sem ég las fyrr í sumar þar sem kom fram að geitur hefðu sinnt auðmönnum í Saudi Arabíu. Bókin er ‘heit lesning’ enda var reynt að koma í veg fyrir útgáfu hennar. Sjá nánar hér síðar í þessu bloggi.

 

Síðan þá hefur meira af geitaefni komið fyrir mín augu, og má þar nefna skemmtilegt og fróðlegt viðtal Evu Maríu við Jóhnnu B. Þorvaldsdóttur í ‘Sunnudagskvöld með Evu Maríu’ þann 16. desember s.l. En Jóhanna hefur ræktað geitur í Borgarfirðinum um árabil og rekur í dag geitabú sem telur rúmlega 100 geitur, en þarf fjármagn, stuðning og skilning stjórnvalda og annarra áhugamanna, til að geta haldið rekstrinum áfram. Jóhanna hlýtur að vera réttnefnd “geitamamma Íslands.”

 

Það þarf áhuga og natni til að sinna geitum. Kom það skýrt fram í viðtalinu við ‘geitamömmuna.’ Það er spurning hvort að auðmenn (lesist = fjárfestar) hafi það sem til þarf, tilfinningalega, til að geta sinnt slíku starfi. Það dugar hvorki fyrir auðmann, nei geit, að stofnað sé geitabú og því sinnt þegar að færi gefst milli þess sem auðmaðurinn flýgur á einkaþotunni sinni milli funda, sumarfría og hanastéla í skattaparadísum. Sumir eiga góða konu, eða mann, og börn, sem væru kannski til í að dvelja í sveitasælunni og sinna geitunum, því þær þurfa athygli. Sumir gætu kannski ráðið Pólverja eða aðra samviskusama nýbúa til að sinna slíkum búskap. Það er allt hægt, en tilfinningagreindin og áhuginn er mikilvægasti þátturinn.

 

Ekki amalegt fyrir auðmann að geta varpað öndinni léttar frá ‘City’ og ‘Wall Street’ andrúmsloftinu og stöðugum fundahöldum með því að fljúga/keyra ‘heim uppí sveit’ og geta endurnýjað orkuna og slappað af með því að klappa og kjassa eigin geitahjörð. Velti fyrir mér hvernig staða geitarinnar er núna í Saudi Arabíu í dag, t.d. m.v. fyrri hlutverk hennar þar, þar sem að hún sinnti mikilvægu hlutverki meðal auðmanna, kauplaust, en á fríu fæði.

 

Ef að geitur hafa einhvern tíma aðstoðað auðmenn í raunveruleikanum, þá er alveg örugglega kominn tími til að dæmið gæti snúist við; að auðmenn fari að sinna geitum. En þeir verða einnig að ver áhugamenn.

 

En þú kannt að spyrja: hvenær hafa geitur sinnt auðmönnum? Jú, alveg örugglega á ýmsan hátt í gegnum aldanna rás, enda mjólkin, kjötið og feldur geitarinnar þjónað mannfólki á gæfuríkan máta. Athena dóttir Seifs klæddist t.d. kjólum úr geitaskinni. Ekki verður langt að bíða þar til hönnuðir hér á landi fari að vinna með geitafeldinn, ef stjórnvöld bregðast við og geri ráðstafanir til að vernda og auka geitastofninn. Sem sagt: þeir sem áttu margar geitur á sínum tíma gátu nýtt afurðir hennar til hins ítrasta og sér til frama.

 

En þar með er öll sagan ekki sögð, því að árið 1974, sýndi Saudi arabískur diplómat nokkur, John Perkins viðskiptafræðingi, myndir frá Saudi Arabíu. Myndirnar voru frá höfuðborginni Riyadh, og meðal þeirra voru myndir af geitum að gramsa í sorpi og éta,  fyrir utan stjórnarbygginguna í höfuðborginni. Þegar Perkins spurði diplómatinn út í þær myndir, þá sjokkeraði svar hans Perkins. Diplómatinn sagði að geiturnar væru aðal sorphirðukerfi borgarinnar. “Enginn Saudi með sjálfsvirðingu myndi nokkurn tíma vinna við sorphirðu,” sagði diplómatinn, “Við látum skepnurnar sjá um þetta.”

 

Perkins, sem fer á kostum í bók sinni, og sem hefur starfað í mörgum löndum, er gáttaður á þessu háttalagi og/eða þessum hugsunarhætti: “Geitur! Í höfuðborg mesta olíuríkis heims. Þetta virtist ótrúlegt.” En tekið skal fram að reynt var að koma í veg fyrir útgáfu bókar John Perkins, Confessions of an Economic Hit Man (2004).

 

Já, Saudarnir græddu á starfsemi geitanna á sínum tíma, og Perkins sá geiturnar sem lykilinn að aðkomu auðmagnsins inn í Saudi Arabíu í formi stórra amerískra sorphirðufyrirtækja, enda mikið fjármagn í sorphirðustjórnunar bransanum.

 

Kannski getum við Íslendingar sýnt fordæmi á þann veg að “auðmenn aðstoða geitur” í stað þess að geitur aðstoði auðmenn, með því að viðhalda og auka við stofn geitarinnar. Mjólk geitarinnar virðist t.d. vera mun betri til manneldis en kúamjólkin, eins og kom fram í viðtalinu við “geitamömmuna” þar sem að hún er auðmeltari en kúamjólkin.

 

Ungabarn hafði fengið geitamjólk hjá Jóhönnu, eftir að búið var að prófa allt: brjóstamjólk, kúamjólk, mjólkurduft, o.s.frv. Barnið svaf loks rólega eftir að hafa fengið geitamjólk á pelann. Merkileg saga.

 

Nú er kominn tími fyrir stjórnvöld til að hlusta á þá sem starfa í grasrótinni. Það er nefnilega ekkert sem heitir ‘asnalegt' í dag því að hvernig svo sem hlutirnir eru, eða það sem er gert í dag, þó að það þyki ‘asnalegt,’ öðruvísi eða sérviturt, þá hefur það tilgang, þó að það sé ekki endilega sýnilegt, en tilgangurinn skýrist yfirleitt í (nánustu) framtíðinni.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband