29.3.2017 | 23:30
Hélt að stór trukkur hefði keyrt á húsið 1947
Amma á Selfossi, vaknaði eldsnemma 29.3.1947 við mikið högg, og hélt að stór trukkur hefði keyrt á húsið. Afi var farinn til vinnu og mamma var á Héraðsskólanum á Laugarvatni þennan vetur. Amma var ein heima. Hún sagði mér að hún hefði kíkt útum alla glugga en ekki orðið neins var.
Það var ekki fyrr en í hádeginu, er kona ein kom til að versla við hana, en amma var með hannyrðaverslun í sama húsi og heimilið, að hún frétti hjá konunni að Hekla væri byrjuð að gjósa. Amma sagði mér að hún hefði reyndar gleymt að kíkja út um þvottahúsgluggann sem snýr í átt að Heklu. Hefði hún gert það, er líklegt að hún hefði séð strókinn frá fjallinu.
Þegar ég var eitt sumarið hjá afa og ömmu, líklega 1965. Vakna ég upp við mikinn hávaða og húsið nötraði. Ég hélt að stór mjólkurbíll eða trukkur væri að keyra eftir götunni. Amma sagði mér að þetta væri jarðskjálfti. En ekkert eldgos fylgdi þessum skjálfta. Eftir þetta var ég með skjálftafóbíu í mörg ár: ef ég fann hristing, þá stirnaði ég upp og velti fyrir mér hvort jarðskjálfti væri í gangi.
Aukinn þrýstingur í Heklu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.