25.1.2011 | 01:14
Fuglar féllu til jarðar í upphafi árs. Er orsökin mengunarskandall og segja fjölmiðlar frá framhaldinu?
Í byrjun janúar fengum við fréttir af fuglum sem féllu dauðir til jarðar í bæði Bandaríkjunum og Svíþjóð. Veit ekki hversu þetta fyrirbrigði er algengt, en það er alfarið á valdi fjölmiðla hvað þeir telja fréttnæmt.
Skv. fréttum á einhverjun miðlinum hér kom fram að einhverjir töldu að fuglarnir hefðu jafnvel dáið úr kulda eða jafnvel úr hræðslu vegna flugelda. Það fannst mér langsótt. Það eru töluverðir kuldar í háloftunum í þessum hluta heims á hverju ári, og árið 2010 það heitasta frá því mælingar hófust, Og svo var töluvert langt um liðið frá gamlárskvöldi. Og ef það væri tilfellið, þá hefði mýgrútur af fuglum átt að falla dauðir til jarðar í London og New York, og jafnvel Reykjavík, árum saman, þar sem fjöldinn fagnar áramótunum með mikilli flugeldasýningu á hverju einasta gamlárskvöldi.
Fram kom í þessum fréttum frá Bandaríkjunum að fuglarnir yrðu krufnir og dauði þeirra rannsakaður. Þá er það hlutverk fjölmiðla að uppfæra fuglafréttina og leyfa okkur lesendum að fá framhaldið.
En ég fór að pæla í þessu og fletti í gamalli bók sem ég er með í fórum mínum. Vildi athuga hvort eitthvað væri fjallað um fjöldadauða fugla. Svo var ekki, en þar var nefnt að þegar hiti færi niður í 4.4. gráður á Celcíus hættu vængir bíflugna að hreyfast. Kannski var þá kuldi skýring á hrapi allra þessara fugla?
En ég tjáði máls á þessu við einn kunningja minn sem ég hitti á förnum vegi nú í vikunni. Hann var með þá kenningu að hugsanlegt væri að þessir fuglar hefðu komist í að éta eitrað hræ; ef einn fugl finnur æti, koma hinir á eftir. Þannig að þeir hafi drepist úr matareitrun. Og þessi kunningi minn nefndi á nafn að hin ýmsu fyrirtæki væru að losa sig við baneitruð og geislavirk úrgangsefni út í náttúruna, þannig að það væri ekki undarlegt þótt dýr dræpust beint eða óbeint af þessum úrgangi, sem væri komið fyrir hvar sem er, ólöglega, og sem eitraði auðveldlega út frá sér, og gæti auðveldlega seitlað út í drykkjarvatn skepna og húsdýra.
Þetta er óhuggulegt. En ekki ný vitneskja fyrir mig að verksmiðjur leysa eitruð úrgangsefni út í náttúruna og eyðileggi nánasta umhverfi, og einnig fjarlægara umhverfi með tímanum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.