29.12.2010 | 00:10
Því fyrr sem krakkar fá að keyra alvöru bíl, því betra.
Þegar ég heyrði þessa frétt fyrr í dag, datt mér strax í hug að svona gamlir karlar væru algjörlega kexruglaðir. Þarna hafði afi á níræðisaldri leyft barnabarninu að taka í bílinn. Reyndar meira en "taka í" - var þetta ekki akstur á þjóðvegi eitt?
Hef svo sem séð áður svona álíka, þar sem að afinn leyfði sex ára gutta að aka rafknúinni sláttuvél á lóðinni við blokkina hjá mér. En afinn er húsvörðurinn. Varð hugsað til þessa atviks á sínum tíma um hvort húsfélagið yrði gert skaðabótaskylt, ef eitthvað slys hefði hent guttann.
Það er kannski eitthvað landlægt hjá öfum þessa lands að lofa barnabörnum sínum að fá þjálfun við að aka bílnum, þegar þeir eru á ferð.
En þegar ég velti þessu máli betur fyrir mér, þá man ég vel eftir því að þegar ég sjálf var á ferð með pabba í bílnum á 7. áratugnum, og við vorum kannski að koma úr Landeyjunum, þá vildi ég endilega fá að prófa að stýra bílnum. Ég fékk að stýra bílnum á smá kafla, en pabbi fór ekki úr bílstjórasætinu. Ég var á svipuðum aldri og guttinn sem fékk að keyra gegnum Héðinsfjarðargöngin.
Á þessum árum, þarna á sjöunda, þegar við heimsóttum vinafólk á býli í Landeyjunum, þótti það reyndar ekki tiltökumál að krakkar keyrðu traktór og ynnu að slætti og snúningi á þessum vélum.
Man alltaf eftir að jafnaldra mín á þessum bæ (þá rúmlega 9 ára), keyrði traktórinn eins og hershöfðingi við snúning á heyji, og ég fékk að sitja í. Og leit vitanlega mikið upp til þessarar jafnöldru minnar, sem kunni á vélina eins og hver annar svínharður bóndi.
En í dag, þykir ekki við hæfi að lítil börn stýri slíkum farartækjum. Ef svo, þá er það líklega barnaverndarmál. Enda er ég á þeirri skoðun að börn eigi alls ekki að koma nálægt farartækjum fullorðinna.
Það væri kannski sniðugt að krakkar kæmust í bíl- eða traktorshermi til að æfa sig fyrir fullorðinsárin. En úti á túni eða á Þjóðvegi eitt: nei, nei.
Níu ára ökumaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.